Fyrirhuguð orkuskerðing Landsvirkjunar um næstu mánaðamót vekur upp spurningar um fjárfestingu í framleiðslu- og flutningskerfi íslensks raforkumarkaðar. Eins og kom fram í Viðskiptablaðinu í síðustu viku sendi Landsvirkjun viðskiptavinum sínum bréf í byrjun mánaðarins, þar sem fram kemur að fyrirtækið muni að öllum líkindum þurfa að draga saman afhendingu á orku um 3,5% í byrjun næsta mánaðar.

Magnús Þór Ásmundsson, forstjóri Alcoa Fjarðaáls, segir að þó talað sé um 3,5% skerðingu þá sé í raun verið að skerða sem nemur allri umfram orku. Fyrir Alcoa þýði þetta að aflið sé skert um 10%.

Nú erum við að fá boð um raforkuskerðingu þriðja árið í röð," segir Magnús Þór. „Í fyrra þá hafði þetta veruleg áhrif á okkar starfsemi. Við töpuðum 10 þúsund tonnum af okkar framleiðslu og áhrif skerðingarinnar vörðu í um fimm mánuði. Þetta snertir atvinnulífið í heild. Mér finnst að fókusinn eigi að vera á fjárfestingar í innviðum raforkukerfisins í heild og það á bæði við um flutningskerfin og framleiðsluna. "

Er næg orka fyrir ný verkefni?

„Nú sjáum við á sjóndeildarhringnum mörg ný og spennandi verkefni en þau eru orkufrek og krefjandi," segir Magnús Þór og vísar til fyrirhugaðrar uppbyggingar á kísilmálmverksmiðjum í Helguvík og á Bakka við Húsavík og sólarkísilverksmiðju á Grundartanga.  „Þá hlýtur að þurfa að spyrja þeirra spurninga hvort verið sé að fjárfesta í innviðum raforkukerfisins eins og til þarf. Þar myndi ég að sjálfsögðu vilja sjá áherslu á að þjóna og afhenda núverandi viðskiptavinum orku áður en farið er að huga að nýjum verkefnum. Ef ekki verður fjárfest enn frekar í þessum innviðum er einsýnt að það aukast líkur á raforkuskorti og skerðingu á hverju ári og það yrði afleidd staða."

Hugmyndir um lagningu sæstrengs til Evrópu hafa komið fram síðustu áratugi en á síðustu misserum hefur töluvert borið á þessari umræðu á nýjan leik enda hefur tækniþróuninni í þessum efnum fleygt fram og aldrei verið fýsilegra að leggja sæstreng. Magnús Þór segist hlynntur því að öll tækifæri séu skoðuð.

Ekki trúverðug umræða

„Umræðan um sæstreng og áhersla á útflutning á umframorku er hins vegar ekki trúverðug þegar við upplifum raforkuskort á hverju ári. Ég get ekki séð hvaða umframorku á að flytja út. Það yrði mjög alvarleg staða ef að þetta verður viðvarandi ástand. Líkurnar á skerðingu aukast með auknu álagi."

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast pdf-útgáfu af blaðinu með því að smella á hlekkinn Tölublöð .