Bogi Nils Bogason, forstjóri Icelandair, segir að félagið verði að skoða aðrar leiðir að óbreyttu eftir að samningaviðræður félagsins við Flugfreyjufélag Íslands (FFÍ) sigldu í strand. Þetta kemur fram í tilkynningu frá Icelandair.

Í tilkynningunni segir að Icelandair hafi á mánudag lagt fram tillögu að nýjum kjarasamningi við FFÍ. Því var svarað af hálfu FFÍ á fundi hjá ríkissáttasemjara í dag. Icelandair ítrekaði boð sitt sem lokatilboð en því var hafnað. Að öllu óbreyttu segir Icelandair að lengra verði ekki komist í viðræðunum.

„Það eru mikil vonbrigði að Flugfreyjufélag Íslands hafi hafnað tilboði okkar. Þetta var okkar lokatilboð og byggir það á sama grunni og þeir samningar sem gerðir hafa verið við stéttarfélög flugmanna og flugvirkja. Í tilboðinu eru fólgnar grunnlaunahækkanir, aukinn sveigjanleiki varðandi vinnutíma en á sama tíma tryggir það samkeppnishæfni og sveigjanleika Icelandair. Því miður verður ekki lengra komist í viðræðum við Flugfreyjufélag Íslands og þurfum við nú að skoða aðrar leiðir. Við ætlum okkur að koma félaginu í gegnum þær krefjandi aðstæður sem nú ríkja og styrkja rekstur þess til framtíðar,“ er haft eftir Boga Nils í tilkynningunni.

Icelandair áformar að halda hluthafafund á föstudag en fyrir honum liggur tillaga um heimild til að samþykkja hækkun hlutafjár. Mikil áhersla hafði verið lögð á að ljúka gerð kjarasamninga fyrir þann fund en fjárfestar hafa margir hverjir gert það að skilyrði fyrir þátttöku sinni að framtíðarhorfur félagsins, þá meðal annars með tilliti til kjarasamninga, séu skýrar. Stefnt er að því að safna þrjátíu milljörðum króna í útboðinu sem á að fara fram í næsta mánuði.