Nauðsynlegt er að styrkja hagsmunagæslu Íslendinga í Evrópusamstarfi, segir Gunnar Bragi Sveinsson utanríkisráðherra í grein í Fréttablaðinu í dag . Gunnar Bragi nefnir ekki hvernig megi gera þetta en segir að fjárlagafrumvarpið marki fyrstu skref að þessu markmiði þar sem lagt sé til að varið verði auknu fjármagni í EES-samstarfið.

Gunnar Bragi bendir á að 80% útfluttra vara frá Íslandi fari til Evrópu. Um 60% innfluttra vara komi frá Evrópu. „Með þátttöku í EES hafa EFTA-ríkin skuldbundið sig til að tryggja að löggjöf sé samræmd ESB á fjölmörgum sviðum. Því er nauðsynlegt að stjórnvöld tryggi að hagsmunum Íslands sé sterklega haldið fram þegar löggjöf er mótuð innan EES, sem síðar verður löggjöf á Íslandi,“ segir Gunnar Bragi.

Gunnar Bragi segir að af þessum ástæðum verði að efla hagsmunagæslu Íslands innan EES. Með þetta í huga sé mikilvægt að hrinda í framkvæmd aðgerðum í þessu skyni. Forgangsraða þurfi þannig að sjónarmið Íslands komi fram í löggjafarstarfi strax á fyrstu stigum máls.