Ísland hefur mun neikvæðari erlenda skuldastöðu en nágrannaríkin og er nær PIIGS-ríkjunum svokölluðu, sem lentu í vandræðum með erlendar skuldir sínar í evrusvæðis-krísunni. Án endurfjármögnunar núverandi skulda nemur áætlaður halli á gjaldeyrisflæði til og frá landinu um 750 milljörðum króna á næstu sex árum. Samanlögð gjaldeyrisþörf þjóðarbúsins gæti því numið um 130% af vergri landsframleiðslu ef aflétta á fjármagnshöfum.

Þetta er á meðal þess sem fram kemur í Skoðun Viðskiptaráðs um áhrif gjaldeyrishafta og afnámi þeirra.

Viðskiptaráð telur að afnám hafta muni að miklu leyti velta á því hvort innlendir aðilar geti mætt þessari miklu endurfjármögnunarþörf með sjálfbærum hætti. Í því felist að „óþolinmóðu“ fjármagni verði skipt út fyrir erlent langtímafjármagn á hagstæðum kjörum. Til að svo megi verða þarf aukin vissa að ríkja um framtíðarhorfur hagkerfisins, bæði til lengri og skemmri tíma.

Í Skoðun Viðskiptaráðs segir:

„Til lengri tíma skiptir mestu að sátt náist um langtímastefnu í efnahagsmálum sem styðji við uppbyggingu útflutningsgreina og raunvöxt hagkerfisins. Til skemmri tíma þarf útfærsla á afnámi haftanna að styðja við fyrirtæki í alþjóðlegri starfsemi, sem munu hafa ráðandi áhrif á framtíðarvöxt útflutningstekna. Til að stjórnendur þeirra kjósi að byggja upp starfsemina hérlendis er nauðsynlegt að þeir trúi að afnám hafta sé í sjónmáli.“