*

þriðjudagur, 17. maí 2022
Innlent 14. október 2021 14:54

Nauðsynlegt að vera á tánum

Margir viðskiptavinir Sahara sögðu upp þjónustu í byrjun Covid en stofan stendur í dag uppi með stærri og fjölbreyttari kúnnahóp.

Davíð Lúther Sigurðarson, segir að eigendur Sahara hafi lengi horft til þess að komast á lista á borð við Fyrirmyndarfyritæki í rekstri. Þegar allt kemur til alls þá skiptir höfuðmáli að reksturinn sé í lagi.
Aðsend mynd

Þrátt fyrir erfiðar aðstæður á auglýsingamarkaði þá skilaði stafræna auglýsingastofan Sahara 28,4 milljóna króna rekstrarhagnaði á síðasta ári. Hagnaður eftir skatta nam 23,5 milljónum samanborið við 47,8 milljónir árið 2019. Rekstrartekjur drógust saman um 10,7% á milli ára og námu 420 milljónum, sem er engu að síður þreföldun frá árinu 2017. Fjallað er um Sahara í sérblaðinu Fyrirmyndarfyrirtæki í rekstri sem kom út í morgun.

„Við vorum mjög ánægð með stöðuna á rekstrinum fyrir Covid. Svo um leið og Trump ákvað að loka bandarísku landamærunum þá fáum við símtal frá mjög mörgum viðskiptavinum sem voru hræddir og sögðu upp þjónustunni okkar. Við sýndum því skilning þar sem við eigum í sambandi við mörg þjónustu- og ferðaþjónustufyrirtæki,“ segir Davíð Lúther Sigurðarson, framkvæmdastjóri og meðeigandi Sahara.

Nokkrum vikum síðar byrjuðu nýir viðskiptavinir, þar á meðal ráðuneyti og ríkisfyrirtæki, að sækjast eftir þjónustu Sahara. Davíð segir að í dag hafi flest fyrirtæki sem sögðu upp viðskiptasamningum í byrjun faraldursins snúið aftur og því standi Sahara uppi með stærri og fjölbreyttari hóp viðskiptavina en áður.

„Við þurftum að bregðast hratt við breyttum aðstæðum. Við lögðum minni áherslur á ákveðnar vörur og einblíndum alfarið á það sem hentaði í Covid-aðstæðunum. Það bjargaði okkur að vera á tánum og kortleggja breytt landslag,“ segir Davíð. Hann bætir við að Sahara reyni að stökkva á allar nýjungar og miðla sem áhugi er á, og nefnir þar TikTok sem dæmi. Auglýsingastofan þekki alla virkni inni á samfélagsmiðlinum og á í góðu sambandi við TikTok að sögn Davíðs.

Hann telur að áhersla Sahara á stafrænar lausnir hafi einnig reynst mikilvæg á þessum tímum. Sahara fékk til að mynda mörg verkefni við að setja upp streymi fyrir viðskiptavini. Fyrirtæki sem höfðu takmarkaða tilvist á stafrænum vettvöngum fóru að þreifa fyrir sér á nýjum slóðum og innleiða stafrænar lausnir í auknum mæli. Á móti kemur drógu viðskiptavinir auglýsingastofunnar verulega úr innlendum birtingum, þ.e. auglýsingum í fréttablöð, útvarpi og sjónvarpi, um tíma í faraldrinum.

Davíð tekur þó fram að Sahara leggi ekki aðeins áherslu á stafrænar lausnir heldur er fyrirtækið einnig með sérfræðinga innan sinna raða í innlendum birtingum. Birtingar á ólíkum miðlum vinna saman og allir skipta þeir því máli en það getur þó farið eftir fyrirtækjum hvaða miðlar henta í markaðssetningu. Sahara byrjar því öll verkefni á að greina hvar viðskiptavinir sínir eru best staðsettir.

„Auglýsingabransinn er fljótur að breytast og er alltaf á hreyfingu en markaðsfræðin er eftir sem áður sú sama og hefur verið kennd síðustu áratugi,“ segir Davíð.

Vantaði hæfni á þessu sviði

Davíð stofnaði framleiðslufyrirtækið Silent árið 2009, sem sérhæfði sig í að búa til myndbönd fyrir Facebook og Youtube. Nokkrum áður síðar fundu stjórnendur fyrirtækisins fyrir þörf á stafrænni markaðsstofu til að fá meira út úr myndböndunum með kostun. Þarna hafi verið glufa á markaðnum og því var Sahara stofnað árið 2016 en fyrirtækin sameinuðust tveimur árum síðar.

Davíð segir að það hafi vantað fólk á vinnumarkaðnum með þá hæfni og kunnáttu sem Sahara var að sækjast eftir. Því hafi fyrirtækið lagt mikla áherslu á að finna rétta fólkið og þjálfa það í nýrri tækni. Það taki þó langan tíma og sé dýrt ferli. Nú sé Sahara að uppskera af þessari nálgun og starfsmenn hafa margir unnið hjá auglýsingastofunni í nokkur ár. Davíð segir að mikið hafi verið lagt upp úr vinnustaðamenningunni og því hafi verið kærkomið að lenda í öðru sæti á nýlegum lista Great Place to Work yfir bestu vinnustaði landsins, aðeins á eftir CCP, og í ellefta sæti yfir lítil fyrirtæki í Evrópu.

„Þegar starfsfólkið skilur á hvaða leið skútan er, þá er allt miklu auðveldara. Við upplýsum fólkið okkar hvað er í farvatninu, ekki bara í næsta mánuði heldur til næstu ára. Við erum hvergi nærri hætt í okkar vegferð.“

Sahara er í dag með markaðsmál hjá tugum íslenskra fyrirtækja í umsjón en hefur einnig komið upp samstarfi við stór erlend fyrirtæki, á íslenskan mælikvarða. Fyrirtækið lagði áherslu á að kynna sig erlendis og tókst að vinna alþjóðleg auglýsingaverðlaun.

„Við erum komin með það frábært starfsfólk að við getum að við getum aðstoðað fyrirtæki hvar sem er í heiminum. Það sannaðist heldur betur í Covid.“

Nánar er fjallað um málið í Fyrirmyndarfyrirtæki í rekstri, fylgiriti Viðskiptablaðsins, sem unnið var í samstarfi við Kelduna. Blaðið er opið öllum og er hægt að nálgast pdf-útgáfu hér.