„Í raun og veru er mjög skrýtið að vera í miklum inn- og útflutningsviðskiptum og ekki vera með áhættuvarnir. Það er það sem við höfum verið að fara í gegnum með fyrirtækjum og virðist vera sífellt meiri áhugi á,“ segir Lilja Pálsdóttir verkfræðingur sem heldur námskeið um áhættustýringu í höftum ásamt Kristínu Erlu Jóhannsdóttur viðskiptafræðingi á miðvikudaginn í næstu viku í samstarfi við Dokkuna í Höfðatorgi.

Meðal annars er farið yfir grunnatriði afleiðuviðskipta, notkun þeirra í áhættustýringu og hvað rúmast innan ramma laga um fjármagnshöft hér á landi. Þær Lilja og Kristín Erla starfa báðar á gjaldeyrisborði hjá Arion banka og hafa sérhæft sig í notkun afleiða við áhættustýringu.

Lilja segir þær hafa unnið að þessu máli undanfarin tvö ár. Síðasta vor fjallaði Viðskiptablaðið um fyrirlestur Kristínar á kauphallardeginum í Háskólanum í Reykjavík þar sem hún benti á að Seðlabankinn væri að opna fyrir varnir vegna áætlanagerðar.

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast tölublaðið hér að ofan undir liðnum Tölublöð .