Innflutningur mun aukast í kjölfar skuldalækkunar húsnæðisskulda og viðskiptajöfnuður versna vegna þessa sem nemur 1% af landsframleiðslu á ári. Þetta kemur fram í svari Bjarna Benediktssonar við fyrirspurn Össurar Skarphéðinssonar, þingmanns Samfylkingarinnar. Svör ráðherrans byggja á mati Seðlabanka Íslands.

Í svarinu segir að sé gert ráð fyrir að viðskiptajöfnuður verði á næstu árum jafn meðaltali síðustu þriggja ára, þ.e. 3,5% af landsframleiðslu séu afborganir erlendra lána um 100 milljarðar króna umfram viðskiptaafgang á árunum 2014 til 2018.

„Nauðsynlegt er að viðhalda myndarlegum afgangi af utanríkisviðskiptum á næstu árum til þess að standa undir þungri greiðslubyrði. Til að ná því markmiði þarf þjóðhagslegur sparnaður að vera svipaður og á síðasta ári og aukast síðan samfara aukinni fjárfestingu. Auk þess þarf að lengja í erlendri fjármögnun innlendra aðila og vegur skuld Landsbankans við LBI þar þyngst. Slíkar aðgerðir myndu draga verulega úr áhættu tengdri greiðslujöfnuði þjóðarbúsins og liðka fyrir losun fjármagnshafta,“ segir í svari.