Stjórn Isavia samþykkti fyrir helgi að stofna sérstök dótturfélög utan um ólíka starfsemi. Þannig verður samkeppnisrekstur á Keflavík skilinn frá rekstri innanlandsflugvalla og flugleiðsögukerfi á Norður-Atlantshafi. Fríhöfnin verður þó áfram rekin í sömu mynd. Fréttablaðið greinir frá þessu.

Sveinn Þórarinsson, sérfræðingur hjá hagfræðideild Landsbankans, segir í samtali við Fréttablaðið að ef það eigi að hleypa fjárfestum að Keflavíkurflugvelli, þá sé þetta nauðsynlegt skref í þá átt.

„Það hefur alltaf verið ljóst að skiptingin innan Isavia, starfsemin í kringum Keflavíkurflugvöll er alveg sér á báti. Innanlandsflugið er niðurgreitt og enginn vilji meðal einkaaðila að fara þangað inn. Lofthelgin verður alltaf á hendi ríkisins. Þessi skerping á skiptingu Isavia er alveg gefin og alveg í takt við fyrri yfirlýsingar,“ hefur Fréttablaðið eftir Sveini.