„Í upphafi þegar við ákváðum að fresta nauðungarsölum var það gert með þeim rökum að við teldum mikilvægt að fólk fengi ráðrúm og tíma til að sjá hvaða áhrif skuldaleiðrétting ríkisstjórnarinnar hefði á mál þess. Núna hefur legið fyrir í nokkrar vikur að útreikningar á höfuðstólslækkuninni og úrvinnsla úr kærum eða óskum fólks eftir frekari útreikningum er aðeins tímafrekari en við áttum von á, enda umsóknirnar mjög margar,“ segir Hanna Birna Kristjánsdóttir, innanríkisráðherra, í samtali við Morgunblaðið í morgun.

Heimild sýslumanna til að fresta nauðungarsölum að beiðni gerðarþola rennur út í kvöld og hyggst innanríkisráðherra því leggja fram frumvarp á fyrstu dögum þingsins um breytingar á nauðungarsölulögum þar sem gert er ráð fyrir að nauðungarsölum verði frestað áfram til 1. mars 2015. Fari allt eftir áætlun mun þá vera lokið vinnslu umsókna um höfuðstólslækkun húsnæðislána.

Hanna Birna segir ríkisstjórnina hafa verið að skoða hvernig hún geti best tryggt að fólk hafi það ráðrúm sem hún vildi gefa með þessum breytingum. „Það er skoðun okkar að það verði ekki gert nema með því að framlengja frestinn.“