Flóabandalagið, VR og verslunarmenn funduðu með SA í gær. Á fundinum lagði SA fram nýtt tilboð. Sigurður Bessason, formaður Eflingar, sat fundinn.

„Staðan er mjög flókin," segir Sigurður. „Við erum búin að vera í þessum viðræðum í sjö mánuði og nú eru tveir mánuðir síðan samningar losnuðu. Ef við erum að komast eitthvað af stað núna þá er það jákvætt en það er langt í land. Þetta útspil með hækkun grunnlauna en að móti muni samningsbundnar álagsgreiðslur, eins og yfirvinna og vaktavinna lækka er auðvitað í samræmi við norræna módelið. Þetta eru róttækar breytingar sem þarfnast mikillar umræðu og ég tel að tíminn núna sé of naumur til þess að menn geti tekið afstöðu til þessa. Ef breyta á vinnumarkaðsmódelinu í þessa veru þá þurfa launþegar að hafa vissu fyrir því að ríki og sveitarfélög séu á sömu blaðsíðu. Umhverfið má ekki mótast af því hvaða ríkisstjórn situr á hvaða tíma."

Sigurður segir að ríkisstjórnin hafi ekki komið með neitt að borðinu.

„Enda hefur hún ekki verið beðin um það. Við teljum að við síðustu fjárlagagerð hafi verið samþykktir ýmislegt sem þurfi að draga tilbaka áður en næstu skref séu tekin. Ég nefni sem dæmi ákvarðanir um skerðingu atvinnuleysisbóta og örorkuþáttinn."

Hafa ekki séð lausnir sem duga

Spurður hvort hann sé bjartsýnn á að það takist að semja á næstu tveimur vikum svarar Sigurður: „Staðan er flókin. Það eru stöðugt fleiri hópar að rekast inn í þetta þunga umhverfi og stöðugt fleiri kjarasamningar að losna. Þetta verður ekki auðvelt verk en ekki heldur óleysanlegt."

Sigurður segir að takist ekki að semja áður en öll þessi verkföll skella á lok mánaðarins muni koma hér upp staða sem íslenskt samfélag hafi aldrei verið í áður.

„Samningsaðilar okkar þurfa að koma að borðinu með lausnir sem duga til en fram að þessu höfum við ekki séð þær."

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast pdf-útgáfu af blaðinu með því að smella á hlekkinn Tölublöð .