Á Sjávarútvegssýningunni, sem haldin var dagana 25. - 27. september sl. í Kópavogi, gekk Naust Marine frá samningum við Celiktrans skipasmíðastöðina í Tyrklandi á öllum vindum og vindustjórnun fyrir nýsmíðar á þremur nýjum togurum fyrir HB Granda í Reykjavík. Gert er ráð fyrir að fyrsta skipið verði tilbúið á fyrri hluta árs 2016 og hin tvö með sex mánaða millibili eftir það.

Í hverju skipi verða 22 vindur, sem allar eru rafdrifnar og með hátæknistjórnun sem hönnuð er og smíðuð af starfsmönnum Naust Marine. Stýringin tryggir nákvæman hraða og aflstýringu á hverri vindu. Togvindurnar eru jafnframt með ATW kerfi, sem er sjálfvirk stjórnun á togvindum í slökun, hífingu og á togi. Kerfið er einnig hannað þannig að varpan opnist sem mest við allar aðstæður og spari þannig bæði í viðhaldi á vörpunni og veiðir betur við erfiðar aðstæður.

Fyrr á þessu ári gekk Naust Marine frá samskonar vindukerfum fyrir tvo togara sem samið hefur verið um byggingu á við Huanghai skipasmíðastöðina í Kína. Þau skip eru fyrir Hraðfrystihúsið Gunnvöru á Ísafirði og Vinnslustöðina í Vestmannaeyjum.