Uppgangur Kína sem stórveldis á heimsvísu er óumflýjanlegt. Sú þróun gæti aftur á móti leitt til hernaðarátaka ef stjórnvöldum í Peking og Washington tekst ekki að vinna saman að því að auka samstarf sitt og koma á fót nýrri skipan í alþjóðastjórnmálum á næstu árum. Þetta kom fram í ræðu sem Henry Kissinger, fyrrverandi þjóðaröryggisráðgjafa og utanríkisráðherra Bandaríkjanna, flutti í Peking í gær fyrir framan 800 hundruð fræðimenn og stúdenta við kínversku vísindaakademíuna (e. Chinese Academy of Science).

Þeir eru fáir sem búa yfir jafn mikilli reynslu og þekkingu á samskiptum Kína og Bandaríkjanna og Kissinger. Hann kom fyrst til Peking árið 1971 í leynilegri sendiför í þeim tilgangi að undirbúa jarðveginn fyrir heimsókn Richard Nixon, þáverandi Bandaríkjaforseta, til Kína í febrúar árið eftir, en fram að þeim tíma höfðu stjórnmálatengsl ríkjanna verið engin í meira en tuttugu ár.

Í ræðu sinni í Peking sagði Kissinger að hann hefði ekki órað fyrir þeim gríðarmiklu þjóðfélagsbreytingum sem áttu eftir að eiga sér stað í Kína þegar hann heimsótti landið í fyrsta sinn fyrir meira en 35 árum. Það fer ekki á milli mála að á þeim tíma sem liðinn er hafa bæði Bandaríkin og Kína hagnast mikið á bættum samskiptum ríkjanna, enda þótt ljóst sé að ávinningur Kínverja hafi að sumu leyti verið meiri. Góð samskipti við Bandaríkin tryggðu Kínverjum öryggi og stöðugleika í Asíu, sem aftur var forsendan fyrir því að kínversk stjórnvöld gátu ráðist í efnahagsumbætur heima fyrir. Nú er svo komið að Kína er orðið að efnahagsveldi á heimsvísu og tvíhliða viðskipti þess við Bandaríkin námu meira en 300 milljörðum Bandaríkjadala árið 2006. Viðskiptahalli Bandaríkjanna við Kína er hins vegar gífurlegur og var um 230 milljarðar dollara á síðasta ári.

Þessi nánu og mikilvægu efnahagstengsl ríkjanna voru aftur á móti eitthvað sem Kissinger leiddi hugann lítið að á sínum tíma. Kissinger kunni ekki mikið fyrir sér í hagfræði - ekki fremur en Nixon, sem hafði engan áhuga á efnahagsmálum - og spáði hann því að þau myndu aldrei skipta verulega miklu máli fyrir ríkin í efnahagslegu tilliti.

Sjá nánar í Viðskiptablaðinu í dag