Í frétt frá Samtökum atvinnulífsins kemur fram að SA hafi ítrekað lýst vonbrigðum sínum með að Ísland skipar sér í hóp þeirra ríkja sem skemmst vilja ganga í átt til aukins viðskiptafrelsis með landbúnaðarvörur. Samtökin telja nauðsynlegt að auka viðskiptafrelsi með landbúnaðarvörur og auka þannig fjölbreytni í vöruframboði, samkeppni og aðhald markaðarins.

Með þessu yrði stuðlað að lækkun á matvælaverði til neytenda sem er alltof hátt hér á landi. Þá þarf að draga úr opinberum stuðningi við landbúnað, gera hann gagnsærri og draga úr markaðstruflandi áhrifum hans. Ennfremur vilja SA að felld verði niður vörugjöld af matvælum og þau öll sett í sama þrep virðisaukaskatts, samtímis því sem lægra þrep hans yrði lækkað í 12%.