Páll Gunnar Pálsson, forstjóri Samkeppniseftirlitsins, segir það vera lífsnauðsynlegt fyrir endurreisn efnhagslífsins að endurreisa hlutabréfamarkað í landinu. Ekki sé rétt að spyrja hvort það sé hægt, miðað við fyrri reynslu, heldur verði að búa þannig um hnútana að það sé hægt.

[Spurning blaðamanns] Það hafa margir sagt að nauðsynlegt sé að endurreisa hlutabréfamarkað eftir hrunið og fá aftur fram kosti þess að vera með fyrirtæki sem skráð eru á markað. Eftir það sem á undan er gengið, m.a. gríðarlega efnahagsbólu sem fól í sér níföldun hlutabréfamarkaðar á skömmum tíma, er þá hægt að endurreisa hlutabréfamarkað á okkar litla landi sem er nægilega skilvirkur?

"Einn af mikilvægum valkostum við sölu fyrirtækja er sala til almennra fjárfesta í gegnum skráðan hlutabréfamarkað. Það er líka aðferð til að stuðla að aðkomu erlendra fjárfesta, t.d. að tvískrá félög í kauphallir hér á landi og erlendis. Það er engin spurning í mínum huga að hlutabréfamarkaður hér á landi verður að eiga sér framtíð. Mér finnst réttara að nálgast umræðu um hlutabréfamarkaðinn með þeim hætti að það verði að endurreisa hann að nýju, frekar en hvort það sé hægt að endurreisa hann.

Það skiptir sköpum að hér sé trúverðugur hlutabréfamarkaður. Þá er ég ekki síst að tala um að auka möguleika fólks almennt, þar með talið bæði innlendra og erlendra fjárfesta, á því að taka þátt í endurreisninni. Útfærsluna á endurreisn hlutabréfamarkaðarins þarf að klára og hugsa vel. En endurreisn hlutabréfamarkaðarins þolir þó litla bið og vonandi tekst að flýta því sem mest að skrá fyrirtæki á markað sem þar eiga heima."