Nautakjöt hefur hækkað verulega umfram verðþróun á síðustu 18 mánuðum, en nautakjöt hefur á síðasta hálfa árinu hækkað um tæp 8% í verði. Þar af hefur nautahakk hækkað um tæp 15%, að því er fram kemur í Fréttablaðinu í dag.

Nautakjöt hefur hækkað mun meira í verði en aðrar kjöttegundir á síðustu misserum. Lambakjöt og fuglakjöt hefur lækkað um 2-3% í verði á síðustu 18 mánuðum.

Innflutningur á nautakjöti hefur margfaldast vegna þess að íslenskir framleiðendur anna ekki eftirspurn. Þrátt fyrir það eru svokallaðir verndartollar á innfluttu nautakjöti. Í samtali við Fréttablaðið í dag segir Andrés Magnússon, framkvæmdastjóri Samtaka verslunar og þjónustu, að á meðan innlendir framleiðendur anni ekki eftirspurn þá eigi að afnema verndartollana. Verðinu sé haldið uppi með tollum, sem bitni á neytendum.