Íslenska heilbrigðistæknifyrirtækið NeckCare hefur lokið rúmlega 1 milljarðs króna fjármögnun. NeckCare, sem þróað hefur einkaleyfisvarðar lausnir til greiningar og endurhæfingar á hálsskaða, hyggst nýti fjármögnunina til sölu og markaðsetningar á vörum félagins á Bandaríkjamarkaði ásamt því að styðja við frekari vöruþróun.  

Framtakssjóðurinn Iðunn sem er í rekstri Kviku eignastýringar leiðir fjárfestinguna ásamt þátttöku núverandi hluthafa og nýrra fjárfesta.

NeckCare hefur á undanförnum árum unnið að rannsóknum, einkaleyfisvernd og þróun hugbúnaðar til hlutlægra greiningar og meðferðar á hálsskaða. Vörur félagsins hafa verið notaðar hér á landi en nýlega var opnuð sérstök höfuð- og hálsáverkamóttaka sem nýtir sér tækni NeckCare.  

Félagið opnaði einnig nýverið skrifstofu í Bandaríkjunum, nánar tiltekið í Winston-Salem í Norður Karólínu, og markar það upphafið að markaðssetningu félagsins í Bandaríkjunum.  

Sjá einnig: Spara heilbrigðiskerfum heims milljarða

Heilbrigðislausnir NeckCare byggja á áralöngum vísindarannsóknum Dr. Eyþórs Kristjánssonar, sjúkraþjálfara sem þróaði og sannprófaði nýtt klínískt matspróf á hreyfistjórn hálsins. Hann og Þorsteinn Geirsson framkvæmdastjóri stofnuðu fyrirtækið árið 2019 en í dag starfar tólf manna hópur vísindamanna, verkfræðinga, heilbrigðisstarfsfólks og viðskiptafræðinga hjá félaginu, bæði á Íslandi og í Bandaríkjunum. 

Markmið fyrirtækisins er að bæta árangur meðferða á stoðkerfissjúkdómum með þróun á tækni sem styður hlutlægt mat og einstaklingsmiðaða endurhæfingu. 

Þorsteinn Geirsson, framkvæmdastjóri NeckCare:

„Það var sérlega ánægjulegt að sjá núverandi hluthafa félagsins taka þátt í hlutafjáraukningu félagsins ásamt því að fá inn reynslumikinn fjárfesti eins og Iðunni með okkur í þessa vegferð.  Vörur félagsins gera heilbrigðisstarfsfólki kleift að mæla ástand sjúklings með skerta hreyfigetu í hálsi. Reynsla heilbrigðisstarfsmanna sýnir að árangur næst fyrr þegar framgangur í meðferð er mælanlegur. Að geta magntekið ástand hálsins og þar með ákvarðað viðeigandi meðferð og sett sjúklingum skýr markmið hjálpar sjúklingum í erfiðu bataferli. Opnun okkar á skrifstofu í Bandaríkjunum mun færa félaginu ný og spennandi sóknarfæri á stærsta heilbrigðistæknimarkaði heims.“

Sigurður Kr. Egilsson, stjórnarformaður NeckCare:

„Það er gríðarlega ánægjulegt fyrir okkur að fá jafn öflugan leiðandi fjárfestir eins og Iðunni inn í okkar hluthafahóp sem kemur jafnframt með mikla þekkingu og reynslu sem nýtist félaginu.  Eftir þrotlausar rannsóknir, einkaleyfisvernd og umfangsmikla vöruþróun þá er varan komin á þann stað sem hún á skilið, þ.e. að markaðssetja vöruna á framsæknasta heilbrigðistæknimarkaði veraldar. Jafnframt hafa opnast ný tækifæri fyrir vöruna eins og t.d. fjarendurhæfing, sem er ört vaxandi markaður, sérstaklega í Bandaríkjunum. Það er því spennandi vegferð framundan hjá félaginu. Hálsskaði er eitt stærsta heilbrigðisvandamál okkar tíma og NeckCare hefur því mikið erindi inn á erlenda markaði.„ 

Hilmar Janusson, framkvæmdastjóri Iðunnar framtakssjóðs:

„NeckCare er glæsileg viðbót við þau fyrirtæki sem eru í eignasafni Iðunnar. Iðunn hefur sérhæft sig í fjárfestingum í lífvísindum og heilbrigðistækni og því erum við spennt að geta tekið þátt í að flytja út íslenskt hugvit í heilbrigðistækni á Bandaríkjamarkað sem er verðmætasti markaður á þessu sviði í heimi. Við berum miklar vonir til fyrirtækisins og starfsfólks þess og hlökkum til samstarfsins.“