Stjórn Norræna umhverfisfjármögnunarfélagsins, Nordic Environment Finance Corporation (NEFCO), hefur lýst yfir vilja til að fjárfesta í íslenska nýsköpunarfyrirtækinu Carbon Recycling International (CRI) fyrir allt að 2 milljónir evra eða rúmlega 246 milljónir króna. Þetta kemur fram í tilkynningu frá CRI.

NEFCO er reiðubúið að ganga til samninga við CRI sem hluta af hlutafjárútboði CRI til að fjármagna fyrsta verkefni þess í Kína. Þetta er jafnframt fyrsta verkefnið sem NEFCO hyggst fjármagna samkvæmt nýrri stefnu þess í alþjóðlegum fjárfestingum.

CRI gerir ráð fyrir að reisa allt að 30 verksmiðjur fyrir árið 2030. Verða þær byggðar á tækni sem fyrirtækið hefur þróað á Íslandi til að framleiða metanól úr koltvísýringi. Verksmiðjurnar munu minnka losun koltvísýrings um allt að 6 milljónir tonna á ári.

Markaður í Kína fyrir metanól er nú um 1900 milljarðar króna á ári (19 milljarðar Bandaríkadala) og er spáð 10% vexti á ári. Stærstu notendur metanóls í Kína eru framleiðendur plasts og annarra gerviefna. Með því að skipta hefðbundnu metanóli sem framleitt er úr jarðgasi og kolagasi út fyrir grænt metanól, geta þessir framleiðendur notað sama búnað til að framleiða sömu vörur, en hefta um leið úr losun gróðurhúsalofttegunda.

Mesti vöxtur í notkun metanóls sem eldsneytis er í bílum, skipum og staðbundnum tækjum. Notkun metanóls hefur þann kost að draga úr heilsuspillandi mengun, t.d. sóti, nitur- og brennisteinssamböndum sem streyma frá bílum og skipum við brennslu jarðefnaeldsneytis. Þegar metanól er framleitt með tækni CRI veldur framleiðsla og notkun eldsneytisins engri losun koltvísýrings.

„Við fögnum ákvörðun NEFCO sem mun flýta enn frekar fyrir því að verkefni CRI og þar með norræn umhverfisvæn tækni nái útbreiðslu í Kína,“ segir Sindri Sindrason, forstjóri CRI. „Helstu áskoranir okkar kynslóðar eru að skila bættum loftgæðum og draga úr hættu á óafturkræfum loftslagsbreytingum. Tækni okkar á þessu sviði á sér nærri ótakmarkaða möguleika og við erum nú í enn betri stöðu en áður til þess að nýta fyrirliggjandi tækifæri á markaði í Kína.“

Það er okkur ánægja að CRI, sem býr yfir einstakri tækni sem getur valdið straumhvörfum, sé fyrsta verkefnið sem samþykkt er í samræmi við ný markmið og heimildir NEFCO. Við vonumst eftir góðri samvinnu við CRI og sterka samstarfsaðila fyrirtækisins í Kína við að þróa og byggja fyrstu verksmiðjuna, sem endurvinnur koltvísýring til metanólframleiðslu og veldur þar með mjög jákvæðum umhverfisáhrifum,“  segir Þórhallur Þorsteinsson, fjárfestingastjóri NEFCO.