Viðskiptaráðherra mun skipa nefnd sem mun hafa það hlutverk að kanna stöðu fjármálalæsis hér á landi, meta þörf á aðgerðum til að bæta þekkingu almennings á vörum og þjónustu fjármálafyrirtækja, og gera tillögur í framhaldi af því.

Efnahags- og framfarastofnunin (OECD) hvetur nú aðildarríki sín til að bæta fjármálalæsi almennings.

Ástæðan fyrir því mun m.a. vera sú staðreynd að fjármálavörur eru orðnar flóknari og fjölbreyttari en áður. Neytendur eiga því oft erfitt með að taka upplýstar ákvarðanir um kaup á slíkum vörum og þjónustu.

Bætt fjármálalæsi almennings ætti einnig að koma sér vel fyrir virkni peningamálastefnunnar og fjármálastöðugleika í landinu.