Í yfirlýsingu frá Unni Kristjánsdóttir, formanni nefndar um erlenda fjárfestingu, segir að nefndin sé eingöngu úrskurðarnefnd um hvort farið sé að lögum um erlenda fjárfestingu nr. 34/1991. Hún líti því aðeins til lagalegra atriða en hvorki pólitískra álitamála né siðferðislegra spurninga í sínum úrskurði.

„Ljóst er að skv. lögum nr. 34/1991 að ráðherra er bundinn af áliti nefndar um erlenda fjárfestingu ef nefndin hafnar fjárfestingunni. Ekki kemur sérstaklega fram í lögunum hvort það sama eigi við þegar nefndin samþykkir fjárfestinguna," segir í yfirlýsingu Unnar.

Endurskoðun ekki fylgt eftir

„Forveri núverandi efnahags- og viðskiptaráðherra setti af stað vinnu við endurskoðun laganna sem ekki hefur verið fylgt eftir. Eftirfarandi var samþykkt samhljóða á fundi nefndar um erlenda fjárfestingu 5. janúar s.l.  „Samdóma álit nefndarmanna er að nauðsynlegt sé að hefja þegar endurskoðun á lögunum“ Þetta lá ljóst fyrir frá fyrsta fundi nefndarinnar.

Í lögu nr. 34/1991 kemur fram  að fjárfesting í orkufyrirtækjum á Íslandi sé takmörkuð við aðila á búsetta EES svæðinu. Í  greinargerð með lagabreytingunum um þetta atriði sem gerðar voru til að uppfylla skyldur  EES-samningsins árið 1996, segir að ekki skipti máli hverjir eru eigendur lögaðila sem er búsettur á EES-svæðinu. Bæði meirihluti og minnihluti nefndar um erlenda fjárfestingu eru því sammála um að Magma Energy Sweden AB njóti staðfesturéttar skv. EES-samningnum," segir í yfirlýsingu sem Unnur sendi fjölmiðlum í kjölfar frétta í kvöld um afstöðu einstakra nefndarmanna.