Fjármálaráðherra hefur skipað framkvæmdanefnd um stofnanakerfi og rekstur verkefna ríkisins. Framkvæmdanefndin starfar í umboði sérstakrar ráðherranefndar sem í eiga sæti forsætisráðherra, fjármálaráðherra, heilbrigðis- og tryggingamálaráðherra og menntamálaráðherra. Framkvæmdanefndinni er ætlað að gera tillögur til ráðherranefndarinnar um hugsanlegar breytingar á fyrirkomulagi þeirra verkefna og þjónustu sem ríkið stendur að og um endurskoðun á stofnanakerfi ríkisins út frá markmiðum um aukna skilvirkni og hagkvæmni og betri þjónustu við borgarana, sem og að hafa umsjón með framkvæmd breytinga sem ákveðið
verður að gera.

Í framkvæmdanefndinni eiga sæti : Baldur Guðlaugsson, ráðuneytisstjóri, tilnefndur af fjármálaráðherra, og er hann jafnframt formaður framkvæmdanefndarinnar, Halldór Árnason, skrifstofustjóri, tilnefndur af forsætisráðherra, Ingimar Einarsson, skrifstofustjóri, tilnefndur af heilbrigðis- og tryggingamálaráðherra og Gísli Þ. Magnússon, deildarstjóri, tilnefndur af menntamálaráðherra. Starfsmaður nefndarinnar verður Arnar Þór Másson, stjórnmálafræðingur.