Nokkuð djúpstæður skoðanamunur er þessa dagana milli meirihluta peningastefnunefndar Seðlabankans og eins nefndarmanns um heppilegt aðhaldsstig peningastefnunnar, segir greining Íslandsbanka í Morgunkorni í dag. Einn nefndarmanna kaus gegn tillögu Seðlabankastjóra um að hækka stýrivexti um 0,25 prósentur í ágúst síðastliðnum. Nefndarmaðurinn, sem greining segir dúfu meðal hauka, taldi heppilegra að fresta ákvörðun um aukið aðhald til næsta vaxtaákvörðunardags.

Fundargerð peningastefnunefndar var birt í gær, tveimur vikum eftir ákvörðun líkt og venjan er. „Samkvæmt fundargerðinni birtist nokkuð djúpstæður skoðanamunur á bæði miðlunarferli stýrivaxta bankans og hvert rétt aðhaldstig peningastefnunar ætti að vera m.v. núverandi aðstæður í hagkerfinu. Er skoðanamunurinn meðal annars í mati á áhrifum af lægri áhættuleiðréttum vaxtamun, áhættu af verri verðbólguhorfum, nauðsyn þess að draga úr örvandi áhrifum peningastefnunnar og hættu á því að vaxtahækkun stöðvi efnahagsbata innanlands. Þessi eini nefndarmaður hélt því fram að vaxtahækkun myndi tefja efnahagsbatann enn frekar og að aukin verðbólga væri tímabundin. Þá varaði hann við því að reyna að knýja fram lægri verðbólgu í gegn um áhrif hærri vaxta til hækkunar á gengi krónu, enda gæti slík þróun dregið út útflutningi,“ segir greining.

Í Morgunkorni segir að peningastefnunefnd muni við ákvörðun í september væntanlega horfa í tölur um greiðslujöfnuð, landsframleiðslu og veltutölur heimilanna sem birtast á næstu dögum og vikum. Einnig muni hún horfa í tölur um verðbólguvæntingar. „Ljóst er þó af fundargerðinni nýbirtu að verulegur meiningarmunur er þessa dagana milli meirihluta nefndarmanna og einnar vaxtadúfu um hverjar horfur séu og hvert rétt aðhaldsstig peningastefnunnar sé um þessar mundir. Var svo sem vitað af þeim meiningarmun fyrir síðustu vaxtaákvörðun. Spáðum við því fyrir þá vaxtaákvörðun að þeir sem styddu vaxahækkun yrðu í meirihluta innan nefndarinnar. Spáðum við því einnig að sú hækkun yrði ekki sú eina á þessu ári en í yfirlýsingu peningastefnunefndarinnar var það sterklega gefið til kynna að nefndin kynni að hækka vexti frekar á næstunni. “