*

laugardagur, 31. júlí 2021
Innlent 29. maí 2013 17:03

Nefndarmenn sammála um óbreytta stýrivexti

Einn nefndarmaður í peningastefnunefnd taldi að óbreytt vaxtastig myndi hvetja til innlends sparnaðar.

Ritstjórn
Aðsend mynd

Allir nefndarmenn í peningastefnunefnd Seðlabanka Íslands studdu tillögu Seðlabankastjóra um að halda stýrivöxtum óbreyttum á síðasta stýrivaxtafundi. Kemur þetta fram í fundargerð peningastefnunefndar sem birt var í dag.

Nefndarmenn voru sammála um að miðað við þær upplýsingar sem birst höfðu frá síðasta fundi nefndarinnar væru rök fyrir að halda vöxtum bankans óbreyttum. Í samræmi við hægari alþjóðlegan hagvöxt hefði dregið úr hagvexti hér á landi og viðskiptakjör hefðu rýrnað.

„Samkvæmt spánni sem birtist í Peningamálum 15. maí eru horfur á að innlendur hagvöxtur verði í ár og yfir spátímabilið heldur minni en Seðlabankinn spáði í febrúar, en eigi að síður nálægt meðalhagvexti undanfarinna þriggja áratuga. Batinn á vinnumarkaði héldi áfram, með fjölgun starfandi og minna atvinnuleysi. Verðbólga hafði hjaðnað í takt við spár bankans og mældist 3,3% í apríl. Undirliggjandi verðbólga og verðbólguvæntingar væru þó hærri. Eigi að síður væri því spáð að verðbólgumarkmiðið næðist heldur fyrr en áður var gert ráð fyrir. Vegist þar á minni hagvöxtur og hærra gengi krónunnar annars vegar og meiri hækkun launa og minni framleiðnivöxtur hins vegar,“ segir í fundargerðinni.

Miðað við þetta töldu nefndarmenn að núverandi vaxtastig veitti nægilegt aðhald og að gera mætti ráð fyrir að það ykist eftir því sem verðbólga hjaðnaði. Einn nefndarmaður taldi viðbótarrök fyrir óbreyttu vaxtastigi að nú þegar þjóðarbúskapurinn er að ná sér á strik væri æskilegt að vaxtastefnan hvetji til innlends sparnaðar sem sé forsenda þess viðskiptaafgangs sem þurfi til þess að standa undir afborgunum af erlendum lánum og kaupum á óskuldsettum gjaldeyrisforða og mikilvæg undirstaða aukinnar innlendrar fjárfestingar.