*

sunnudagur, 16. maí 2021
Innlent 2. desember 2020 16:19

Nefndin sammála Ásgeiri um vaxtalækkun

Peningastefnunefnd stóð öll að baki tillögu um lækkun vaxta, sem og að nú væru betri aðstæður til kaupa á ríkisskuldabréfum.

Ritstjórn
Ásgeir Jónsson er seðlabankastjóri.
Gígja Einarsdóttir

Allir nefndarmenn peningastefnunefndar Seðlabanka Íslands studdu tillögu Ásgeirs Jónssonar seðlabankastjóra um 0,25 prósentustiga lækkun stýrivaxta fyrr í mánuðinum. Jafnframt sammæltust öll nefndin um að nú væru betri aðstæður fyrir bankann til að beita sér af meiri krafti við kaup á ríkisskuldabréfum að því er fram kemur í fundargerð nefndarinnar.

Þar kemur fram eins og fjallað hefur verið um í fréttum að bankinn teldi ekki ráðlagt að beita sér af krafti á skuldabréfamarkaði á sama tíma og verið væri að beita inngripum á gjaldeyrismarkaði, m.a. vegna útflæðis tengds sölu erlendra aðila á ríkisskuldabréfum.

Ástæðan fyrir bættum aðstæðum nú eru því sagðar þær að nú væri kominn meiri stöðugleiki á gjaldeyrismarkaði, þótt áfram yrði fylgst með þróun ávöxtunarkröfu á markaði og hversu hratt framboð á ríkisbréfum ætti eftir að aukast, því slíkt væri ætíð háð mati á aðstæðum.

Eins og Viðskiptablaðið hafði eftir seðlabankastjóra á kynningarfundi eftir tilkynningu bankans um stýrivaxtalækkunina mun peningaprentun bankans hefjast að verulegu leyti á næsta ári, en umfangið muni þó ráðast af verðbólgu.

Nefndarmenn telja að lækkun vaxta og aðrar aðgerðir sem Seðlabankinn hefur gripið til undanfarna mánuði hefði stutt við innlenda eftirspurn og þannig dregið úr neikvæðum áhrifum efnahagsáfallsins.

Jafnframt telur nefndin að þótt verðbólga hefði aukist tímabundið og að horfur væru á að hún yrði meiri en búist var við í ágúst gerði traustari kjölfesta verðbólguvæntinga það kleift að bregðast við verslandi efnahagshorfum með afgerandi hætti.