Nefnd um rekstrarumhverfi einkarekinni fjölmiðla hefur skilað af sér tillögum um hvernig bæta megi rekstrarumhverfi einkarekinna fjölmiðla. Um er að ræða sjö tillögur:

  • 25% af framleiðslukostnaði frétta og fréttatengds efnis verði endurgreitt af ríkissjóði en hámark verði sett á heildarupphæð endurgreiðslunnar
  • Meirihluti nefndarinnar leggur til að Ríkisútvarpið fari af auglýsingamarkaði
  • Virðisaukaskattur á sölu og áskriftum á rafrænu formi og af hljóð- og myndefni eftir pöntun verði 11%
  • Áfengis- og tóbaksauglýsingar verði heimilaðar
  • Kostnaður vegna textunar og talsetningar verði endurgreiddur að hluta
  • Hægt verði að sækja um undanþágu til Fjölmiðlanefndar frá textun eða talsetningu á sýningum á erlendu efni
  • Opinberum aðilum verði gert að birta sundurliðaðar upplýsingar um kaup á auglýsingum

Mennta- og menningarmálaráðherra fagnar tillögum og greinargerð nefndarinnar og telur þær mjög gagnlegar við frekari undirbúning aðgerða af hálfu stjórnvalda til að styrkja rekstrargrundvöll frjálsra fjölmiðla á Íslandi að því er kemur fram í fréttatilkynningu. Ennfremur segir að í skýrslunni er dregið skýrt fram að áskoranir í rekstri fjölmiðla eru ekki eingöngu bundnar við Ísland heldur eru einnig viðfangsefni stjórnvalda í nágrannaríkjum okkar.

Nefndin var skipuð fimm einstaklingum. Björgvin Guðmundsson var formaður nefndarinnar en auk hans sátu fjórir aðrir nefndarmenn, Elfa Ýr Gylfadóttir, Hlynur Ingason, Soffía Haraldsdóttir og Svanbjörn Thoroddsen.