Almennt séð er ekki hagkvæmara að skipa sjálfstæða stjórnsýslunefnd um sérstakt málefni í stað þess að mál fari í hefðbundinn farveg innan stjórnsýslunnar. Það er ekki alltaf svo að meðferð mála sé skilvirkari en inni í ráðuneytum auk þess að skjalastjórn og upplýsingaöryggi er oft ábótavant sem og skortur á starfsaðstöðu.

Þetta er meðal þess sem kemur fram í skýrslu sem dr. Páll Hreinsson, dómari við EFTA-dómstólinn og fyrrverandi hæstaréttardómari, vann um sjálfstæðar stjórnsýslunefndir að beiðni forsætisráðherra í tilefni af 25 ára lögfestingarafmæli stjórnsýslulaganna.

Í íslenskum rétti er það meginregla að einstaklingar og fyrirtæki eigi almennt rétt á að unnt sé að skjóta máli þeirra frá lægra settu stjórnvaldi til æðra setts stjórnvalds. Vanalega var það svo að ákvörðun lægra setts stjórnvalds var unnt að skjóta til þess ráðherra sem var yfir málaflokknum. Það er hins vegar gömul saga og ný að ráðuneytin hafa oftar en ekki meiri áhuga á vinnu við stefnumótun framtíðarinnar og samningu laga og reglugerða. Það að slökkva elda fortíðarinnar vill oftar en ekki mæta afgangi. Afleiðingin hefur meðal annars verið sú að afgreiðsla stjórnsýslukæra hefur í auknum mæli verið færð úr ráðuneytum til sjálfstæðra stjórnsýslunefnda.

„Um þau fáu mál sem enn sæta kæru til ráðherra sögðu starfsmenn ráðuneyta sem skýrsluhöfundur ræddi við að oft væri ekki annar tími til þess að semja úrskurði en á kvöldin eða á helgidögum,“ segir í skýrslunni.

Í einhverjum tilfellum eru rýr eða engin rök færð fyrir því að rétt sé að koma nefnd á laggirnar. Þau rök sem oftar en ekki eru týnd til við stofnun sjálfstæðra stjórnsýslunefnda eru oftar en ekki svipuð. Í fyrsta lagi eru þar nefnd skilvirkni- og kostnaðarsjónarmið, það er að fljótlegra og ódýrara sé að reka mál sitt fyrir stjórnvaldi heldur en hjá dómstólum. Þá eru úrskurðarnefndum komið fyrir í armslengd frá ráðherra málsins og því dragi það úr líkum á því að geðþótti eða pólitísk sjónarmið ráði för. Slíkt fyrirkomulag sé einnig til þess fallið að tryggja samræmi í úrskurðarframkvæmd. Í einhverjum tilfellum eru það síðan ákvarðanir ráðuneytis sem kærðar eru og óeðlilegt er að ráðuneytið sjálft taki eigin ákvörðun til endurskoðunar.

Póstkassi í sameign

Í gegnum tíðina hefur kostnaðarsjónarmiðum verið haldið á lofti, það er að í því að reka sjálfstæðar stjórnsýslunefndir sparist skattfé. Lausleg yfirferð Viðskiptablaðsins á fjárlögum ársins sýnir að kostnaður við sjö stjórnsýslunefndir sem þar eru nefndar til sögunnar er rúmlega milljarður króna. Í skýrslunni er bent á það að meðalkostnaður á mál hjá ÚUA hafi árið 2017 verið ríflega milljón króna en lækkað niður í 705 þúsund árið 2018. Kostnaður á mál hjá yfirskattanefnd hafi síðan verið yfir 800 þúsund krónur á hvert mál. Nefndirnar sem þar eru nefndar til sögunnar eru síðan bornar saman við lagaskrifstofu dómsmálaráðuneytisins og á það bent að kostnaður sé oftar en ekki um tvöfalt hærri. Rétt er þó að taka fram að kostnaður milli nefnda er mismunandi eftir fjölda mála og hvort þær þurfi fasta starfsmenn eður ei. Í fjölda nefnda er umsýsla lítil og nefndarmenn fá aðeins greitt fyrir hvern fund. Í viðauka er að finna upplýsingar um meðaltalskostnað við hvert dómsmál í héraði en sá er lægri en kostnaður í nokkrum nefndanna.

Í skýrslunni er enn fremur á það bent að oftar en ekki sé starfsaðstöðu nefnda afar ábótavant. Það sé alþekkt að nefndarmenn í slíkum nefndum „semji úrskurði í málum sem hafa að geyma skjöl sem innihalda mjög viðkvæmar upplýsingar sem bundnar eru þagnarskyldu heima hjá sér við eldhúsborðið innan um fjölskyldu sína“. Dæmi eru um að heimilisfang nefndar hafi verið hið sama og formanns nefndarinnar en sá bjó í fjölbýlishúsi. Skjöl til nefndarinnar bárust því í almennum pósti í póstkassa formanns í sameign hússins.

Í upphafi aldarinnar voru viðraðar, meðal annars í greinum Sigurðar Tómasar Magnússonar og Friðgeirs Björnssonar, hugmyndir um að koma upp sameiginlegri starfsaðstöðu fyrir sem flestar stjórnsýslunefndir. Með því væri hægt að samnýta símsvörun, skjalavörslu, starfsmenn og fundaaðstöðu. Þær hugmyndir hafa ekki fengið hljómgrunn innan stjórnsýslunnar og á meðan eru nefndirnar vistaðar í hinum og þessum póstkössum eða persónulegum póstföngum nefndarmanna.

„Verði framangreind leið ekki farin er a.m.k. ljóst að ekki er verjandi að sjálfstæðar stjórnsýslunefndir séu hér á landi að störfum nema að þeim sé fengin viðunandi starfsaðstaða og að séð sé fyrir símsvörun, skjalaskráningu og skjalavörslu þeirra, þannig að þær starfi í samræmi við [stjórnsýslu- og persónuverndarlög],“ segir í skýrslunni.

Afgreiðslutími oft langur

Enn önnur rök sem týnd hafa verið til við stofnun sjálfstæðra nefnda er að með því móti sé hægt að fá sérfræðinga til starfa í þeim sem ekki hafa hug á aðalstarfi í Stjórnarráðinu. Reyndin sé hins vegar sú að kjör fyrir setu í nefndunum eru oft bágborin, miðað við vinnuálag, og því eigi þetta til að missa marks. Þá séu einhver dæmi um að spekileki verði frá ráðuneytum til nefndanna og að ráðuneyti endi á að fá utanaðkomandi lögmenn eða ráðgjafa til að sinna einstökum verkefnum sem nefndamenn sinntu áður.

Skýrslan víkur einnig að afgreiðslutíma mála bæði innan ráðuneyta og sérstökum nefndum en hjá hluta nefnda eru nefndarmenn nánast eins og hamstrar á hjóli. Til að mynda er vart kveðinn upp úrskurður hjá ÚUA án þess að þess sé getið í niðurlagi hans að afgreiðsla máls hafi tekið langan tíma. Sú nefnd er þó ekki svarti sauðurinn í þessum efnum en afgreiðslutími hjá úrskurðarnefnd hugverkaréttinda á sviði iðnaðar var til að mynda 668 dagar árið 2017.

N ánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir Tölublöð , aðrir geta skráð sig í áskrift hér .