Jólabörn landsins munu eflaust kætast á morgun því þá fer útvarpsstöðin Jólastöðin í loftið. Eins og nafnið gefur til kynna munu eingöngu jólalög hljóma á útvarpsstöðinni.

„Fyrir utan að spila bara jólatónlist þá verða skemmtilegir dagskrárgerðarmenn sem krydda dagskrána vel,“ segir Svali Kaldalóns, dagskrárgerðarstjóri hjá útvarpssviði Skjásins. Útvarpsstöðin verður á tíðninni 89,5. „Í lok nóvember munum við síðan fjölga dagskrárliðum og fá jólastjörnur í heimsókn til að sjá um þætti. Þú færð negullyktina í gegnum útvarpstækið,“ segir Svali. Aðspurður hvaða jólalag mun hljóma fyrst allra þegar stöðin fer í loftið segir Svali það óljóst.

„Við erum að rífast um það svo það er ekki ákveðið enn. Uppáhaldslagið mitt er Driving Home for Christmas með Chris Rea svo það er séns að það verði ofan á.“