Rekstrartekjur Ljósleiðarans námu 1,8 milljörðum króna fyrstu sex mánuði ársins samanborið við 1,6 milljarða árið áður og því um 12% tekjuvöxt að ræða. Þá nam rekstrarhagnaður fyrir afskriftir (EBITDA) 1,3 milljörðum króna samanborið við 1,1 milljarða króna fyrstu sex mánuði síðasta árs.

Þrátt fyrir vöxt í rekstrartekjum og EBITDA hafði aukinn fjármagnskostnaður þau áhrif að félagið skilaði neikvæðri afkomu sem nemur 71,7 milljónum króna en á sama tíma árið 2021 var afkoma jákvæð sem nemur 134 milljónir króna.

Þá námu eignir félagsins 30 milljörðum króna en skuldir námu 19 milljörðum króna og eiginfjárhlutfall félagsins var 37,1% samanborið við 38,5% í lok árs 2021.

Erling Freyr Guðmundsson, framkvæmdastjóri Ljósleiðarans:

„Eins og hjá mörgum öðrum í samfélaginu hefur aukin verðbólga ásamt hækkandi vöxtum á fyrri hluta ársins mikil áhrif á endalega niðurstöðu rekstrar. Við höfum þegar stigið mikilvæg skref til að lækka fjármagnskostnað, nú síðast með útgáfu og skráningu grænna skuldabréfa á fyrri hluta ársins.“ Þá segir hann að gangi áform fyrirtækisins um hlutafjáraukningu eftir verði fjármagn nýtt jöfnum höndum til að greiða upp óhagstæðari lán og til fjárfestinga í tengslum við uppbyggingu nýs landshrings fjarskipta.