Ávöxtunarkrafa á alla flokka íbúðabréfa lækkað í janúar í ár, en mest var lækkunin á stysta flokknum, HFF14, sem er á gjalddaga árið 2014, eins og nafnið ber með sér. Kemur þetta fram í mánaðarskýrslu Íbúðalánasjóðs fyrir janúar.

Krafan á HFF14 bréfunum var í lok janúar neikvæð um 7,82%, en aðeins mánuði fyrr var hún neikvæð um 5,60% og er munurinn því einir 222 punktar. Krafan á HFF24 var í janúarlok 1,09%, en var 1,44 mánuði fyrr. HFF14 bréfin hafa verið vinsæl meðal erlendra krónubréfaeigenda, því samkvæmt reglum Seðlabankans má taka vaxtagreiðslur og afborganir úr landi. Vegna þess hve skammt er eftir af líftíma skuldabréfaflokksins geta eigendur þessara bréfa tekið andvirðið úr landi mjög hratt og eru greinilega tilbúnir að greiða 7,8% álag til að losna fyrr en ella.

Heildarútlán Íbúðalánasjóðs í janúar námu tæpum 1,3 milljarði króna, sem er ekki langt frá lánsfjárhæðinni í sama mánuði árið 2011, en þá námu útlán sjóðsins 1,4 milljörðum króna. Meðalfjárhæð almennra lána var um 9,2 milljónir króna.