Innlendur hlutabréfamarkaður hefur átt mjög erfitt ár þar sem gengi margra félaga hefur annað hvort lækkað eða stigið óverulega í fremur dræmri veltu. Þetta kemur fram í nýrri umfjöllun Greiningar Íslandsbanka .

Þar kemur fram að K-90 hlutabréfavísitala Greiningar ÍSB, sem lýsi verðbreytingum þeirra félaga sem mest velta sé með á íslenska hlutabréfamarkaðnum, hafi lækkað um 2% frá áramótum. Vísitalan fór lægst í júlí og nam lækkunin þá 8,5% en vísitalan hefur verið nokkuð hærri síðan og stendur nú á sama stað og stóð um miðjan febrúar síðastliðinn.

Lítil velta

Velta með hlutabréf frá janúar til október hefur numið um 23 milljörðum króna að meðaltali á mánuði. Til samanburðar var meðalveltan á mánuði í fyrra 21 milljarðar króna. Greining ÍSB segir hins vegar að í samanburðinum þurfi að taka tillit til þess að skráðum félögum hafi fjölgað. Það sem af sé þessu ári hafi hlutabréfamarkaðurinn verið með veltu sem hafi verið í kringum 4,2% af markaðsvirði hlutabréfa á Aðallista Kauphallarinnar og sé það nokkuð minna en í fyrra, þegar hlutfallið var 5,1%.

Lækkunin kemur á óvart

Greining ÍSB segir að heilt á litið komi lækkun hlutabréfa á innlendum hlutabréfamarkaði á árinu á óvart. Ástæðan sé einfaldlega sú að fá félög hafi á árinu skilað afkomu sem sé til þess fallin að stýra væntingum um framtíðararðsemi í neikvæðan farveg. Í sumum tilfellum sé hugsanlega um verðleiðréttingu að ræða eftir mikla hækkun í fyrra og eðlilega hafi árferðið verið erfiðara sumum félögum en öðrum. Þannig hafi fjármagnsmarkaðir til að mynda leikið tryggingafélögin grátt.

Það liggi hins vegar fyrir að miðað við eðlilega ávöxtunarkröfu til hlutafjár ættu félögin að hafa hækkað á bilinu 10-14% í ár hefðu þau verið rétt verðmetin í upphafi ársins og ekki komið fram neinar nýjar upplýsingar sem breytt hafi verðmatsforsendum frá upphafi árs. Það sé því eðlilegt að spyrja hverju sæti, en líklega liggi ástæðan í því að fjárfestar hafi fundið að þeirra mati betri tækifæri í óskráðum fjárfestingum.