„Starfandi fólki fækkar og atvinnuleysi eykst,“ segir í yfirskrift Hagfræðideildar Landsbankans sem birti nýja Hagsjá núna í morgun um stöðuna á vinnumarkaði.  Deildin segir niðurstöðu vinnumarkaðskönnunar Hagstofunnar áætla að um 207 þúsund manns hafi verið á vinnumarkaði í september 2019, sem jafngildir 80,3% atvinnuþátttöku. Af þeim voru u.þ.b. 200 þús. starfandi og 6.700 atvinnulausir.

Atvinnuleysi er samkvæmt þessum tölum er 3,3%.

„Fyrr á árinu var reiknað með verulega auknu atvinnuleysi eftir því sem liði á árið og að staða á vinnumarkaði myndi versna. Þróunin hefur verið hægari en reiknað var með.

Fjöldi uppsagna í lok 3. ársfjórðungs hefur væntanlega aukið nokkuð á svartsýni um þróun vinnumarkaðar á næstunni. Í þessu sambandi beinast augun fyrst og fremst að ferðaþjónustu, en einnig að byggingamarkaði. Spurningin um næstu loðnuvertíð skiptir líka miklu sums staðar á landinu.

Líklegt má telja að atvinnuleysi muni aukast eitthvað á næstu misserum, þó ekki eins mikið og reikna mátti með á tímabili. Hagfræðideild reiknar með að skráð atvinnuleysi verði 3,6% í ár, 4% á árinu 2020 og 3,5% á árunum 2021 og 2022,“ segir í Hagsjá Landsbankans.