„Fyrstu ellefu mánuði ársins 2014 voru fluttar út vörur fyrir 538,1 milljarð króna en inn fyrir 539,9 milljarða króna fob (577,3 milljarða króna cif). Vöruskiptin við útlönd voru því óhagstæð um 1,8 milljarða króna, reiknað á fob verðmæti." Þetta segir á vef Hagstofunnar, þar sem vöruskipti á fyrstu 11 mánuðum seinasta árs eru tekin saman. Vöruskiptajöfnuður við útlönd á þessu tímabili er því um 44,8 milljörðum lakari en á sama tíma í fyrra.

Gjaldeyriskaup Seðlabanka duga ekki

Seðlabanki Íslands hóf í maí 2013 reglubundin og óreglubundin kaup á gjaldeyri til þess að halda aftur af styrkingu krónunnar og safna gjaldeyrisvaraforða til að undirbúa afnám gjaldeyrishafta. Á fyrstu mánuðum 2014 hafði Seðlabankinn keypt gjaldeyri að jafnvirði rösklega 110 milljarða íslenskra króna.

Talið er að áhrif þessa á gengi hafi verið töluverð, þó erfitt sé að spá fyrir um þau nákvæmlega með vissu. Í öllu falli hafa aðgerðirnar ekki dugað til að halda jákvæðum vöruskiptajöfnuði á árinu, enda hefur gengi krónunnar leitað nokkuð upp á við.