Markviss dreifing jákvæðrar umfjöllunar er einn mikilvægur þáttur í markaðssamskiptum og almannatengslum. Þau framboð sem sinna vel þessum þætti og þar á meðal áhrifamiklum samfélagsmiðlum eins og facebook standa betur að vígi en önnur framboð, að sögn Magnúsar Heimissonar, almannatengils Fjölmiðlavaktarinnar.

Magnús svaraði nokkrum spurningum á spyr.is sem spruttu vegna fréttar Stöðvar 2 um dreifingu frétta um stjórnmálaflokka á Facebook.

Þar kom m.a. fram að í aðdraganda alþingiskosninganna var fólk duglegra að deila neikvæðum fréttum um stjórnmálaflokkana á Facebook en jákvæðum. Oftast var fréttum um Sjálfstæðisflokkinn deilt á samfélagsmiðlinum en Framsóknarmenn deildu frekar jákvæðari fréttum. Í svari sínu á spyr.is sagði hann að dreifing á neikvæðum fréttum væri helmingi algengari en dreifing á jákvæðum fréttum.

Spurður um það hvort fylgni væri á milli umræðunnar á netinu og svo fylgi flokkanna í skoðanakönnunum eða kosningum sagði hann að ákveðið mynstur væri fyrir hendi. „Við höfum séð ákveðið mynstur eins og t.d. þegar mikill fjöldi neikvæðra frétta er í tengslum við ákveðið mál þá hefur það áhrif á fylgi. Þess ber að geta það það eru margir aðrir þættir sem hafa áhrif á fylgið og fjölmiðlaumfjöllun er einungis einn þáttur í þvi.“