*

laugardagur, 23. janúar 2021
Erlent 26. nóvember 2020 19:10

Neikvæðir vextir af ríkisbréfum Portúgals

Nafnvextir á ríkisskuldabréfum Portúgals eru nú neikvæðir. Markaðsaðilar gera ráð fyrir frekari inngripum af hálfu Evrópska seðlabankans.

Ritstjórn
Christine Lagarde er forseti Evrópska seðlabankans.

Tíu ára ríkisskuldabréf Portúgals bera nú í fyrsta sinn neikvæða nafnvexti en verðbólga þarlendis er við núll prósent. Talið er að fjárfestar séu í auknum mæli að gera ráð fyrir frekari magnbundinni íhlutun af hálfu Evrópska seðlabankans í næsta mánuði.

Nú þegar hefur áðurnefndur seðlabanki keypt skuldabréf fyrir um 1.350 milljarða evra til þess að mæta áhrifum kórónufaraldursins. Gert er ráð fyrir að efnahagur Portúgals dragist saman um 8,8% á þessu ári, að því er segir í frétt Financial Times.

Hæst hefur ávöxtunarkrafa téðra bréfa borið 1,4% vexti á þessu ári. Frá þeim tíma hafa vextirnar lækkað og hafa þeir verið fyrir neðan eitt prósent allt frá miðjum öðrum ársfjórðungi. 

Í lok árs er gert ráð fyrir að skuldir Portúgals verði 136% af vergri landsframleiðslu, einungis Ítalía og Grikkland búa við hærra skuldahlutfall af Evrópulöndum.