Andrés Magnússon framkvæmdastjóri Samtaka verslunar og þjónustu segir skýringu á að tæpur þriðjungur landsmanna segist bera lítið eða ekkert traust til verslunar á Íslandi megi leita til neikvæðrar umræðu á þeim tíma þegar könnunin var gerð að því er Morgunblaðið segir frá.

Jafnframt segir hann samanburðinn við aðrar atvinnugreinar vera hagstæðan. „[Verslunin] nýtur álíka jákvæðs viðhorfs og ferðaþjónustan og mun betra viðhorfs en fjármálageirinn,“ segir Andrés.

Létu samtökin rannsóknarfyrirtækið Zenter kanna afstöðu almennings til verslunar hér á landi, og fór hún fram dagana 4. til 18. desember síðastliðinn að því er segir á vef samtakanna. Samkvæmt niðurstöðu hennar sögðu 52,5% hafa eitthvað traust til íslenskrar verslunar, 30,0% lítið eða ekkert traust og 13,7% fullkomið eða mikið traust.

Tölurnar voru skárri fyrir verslunina þegar spurt var um hversu jákvæð eða neikvæð upplifun fólks var af verslun á Íslandi. Þá sögðust 40,0% hafa jákvæða upplifun af verslun á Íslandi, 38,2% hvorki né og 20,5% neikvæða upplifun.

Segir Andrés að skoða eigi niðurstöður könnunarinnar í ljósi þess að skömmu áður hafi tveir erlendir verslunarrisar, Costco og H&M hafið starfsemi á Íslandi. „Fáar ef nokkrar atvinnugreinar hafa þurft að þola jafnmikið neikvætt umtal – meira að segja á vettvangi stjórnmálanna – og hefur íslensk verslun átt á brattann að sækja í umræðunni undanfarin misseri,“ segir Andrés.

Tveir þriðju báru traust til verslunarinnar

Hann bendir á að nærri tveir þriðju svarenda hafi borið eitthvað, mikið eða fullkomið traust til íslenskrar verslunar og að rúmlega 78% hafi sagt upplifun sína jákvæða eða hvorki né. Segir Andrés ástæðu þess að íslensk verslun geti ekki boðið sambærilegt verð og í nágrannalöndunum séu fyrst og fremst aðgerðir stjórnvalda, það er tollvernd og annað til verndar landbúnaði.

„[V]erð á innlendri vöru fer hækkandi en þær vörur mynda um 60-70% af dæmigerðri innkaupakörfu viðskiptavina hjá stórmörkuðunum,“ segir Andrés á sama tíma og afnám tolla og styrking krónunnar hafi lækkað verð á innfluttum vörum.