Það er fjarri því eins heiðskýrt yfir fjárfestum á meginlandi Evrópu þótt sól skíni hátt á lofti. Helstu hlutabréfavísitölur hafa lækkað nokkuð í dag í helstu kauphöllum Evrópu eins og síðustu sjö daga. Í netútgáfu breska viðskiptadagblaðsins Financial Times segir að aðgerðir helstu seðlabanka heims, sem hafi m.a. dælt miklum fjármunum inn í bankakerfið og auðveldað fyrirtækjum á fjármálamarkaði að nálgast lánsfé með litlum tilkostnaði, ekki hafa tekist. Við þessar áhyggjur bætist almennt veik staða heimshagkerfisins og háar atvinnuleysistölur beggja vegna Atlantsála.

Financial Times segir fjárfesta hafa áhyggjur af stöðu mála á evrusvæðinu. Þeir hafi af þeim sökum fært sig úr áhættusömum eignum yfir í þær sem teljist öruggar á borð við bandarísk og þýsk ríkisskuldabréf.

Nikkei-hlutabréfavísitalan í Japan lækkaði um 1,48% við lokun markaða í dag og er svipaða sögu að segja af öðrum hlutabréfamörkuðum í Asíu.

Þá hefur FTSE-vísitalan í kauphöllinni í Lundúnum lækkað um 0,74% það sem af er degi, Dax-vísitalan í Þýskalandi hefur lækkað um 0,84% og CAC 40-hlutabréfavísitalan í kauphöll Frakklands lækkað um 0,84%.