Tap á fyrri árshelmingi hjá Heimavöllum nam 476 milljónum króna samanborið við 2,8 milljóna króna hagnað á sama tímabili fyrra árs. Rekstrarhagnaður fyrir matsbreytingar nam 940 milljónum á fyrri hluta árs, 480 milljónum á fyrsta ársfjórðung, en 1.030 milljónum á fyrri hluta árs 2019. Frá þessu er greint í tilkynningu til Kauphallar um drög að uppgjöri fyrri árshelmings.

Rekstrartekjur á fyrri árshelmingi drógust saman um ríflega 10% og nam 1.564 milljónum króna en 1.749 á sama tímabili árið 2019. EBIT framlegð nam 60,1% en 58,9% á fyrri hluta árs 2019.

Matsbreytingar á fyrri hluta árs voru neikvæðar um 515 milljónir en jákvæðar um 75 milljónir á sama tíma árið 2019. Aukningin er talin vera að mestu tilkomin vegna aukinnar vannýtingar og hærri ávöxtunarkröfu eigin fjár við mat á virði eigna. Vannýtingarhlutfall jókst á fjórðungnum og nam 6,2% af tekjum en 5,2% á fyrsta ársfjórðungi.

Sjá einnig: Hefur eignast yfir 99% í Heimavöllum

Handbært fé frá rekstri nam 384 milljónum í lok fyrra hluta árs en var 78 milljónir á sama tíma 2019. Eiginfjárhlutfall félagsins stóð í 37,5% við lok annars ársfjórðungs en var 38,1% í lok fyrsta ársfjórðungs.

Félagið Fredensborg ICE ehf. átti í júnílok 99,45% af útgefnu hlutafé félagsins að teknu tilliti til eigin bréfa.