Novator á Íslandi, fjárfestingafélag Björgólfs Thors Björgólfssonar, tapaði 709 milljónum króna árið 2019 en hagnaðist um 573 milljónir árið áður. Niðurfærsla krafna skýrir að miklu leiti neikvæðan viðsnúning Novator. Árið 2018 voru þær engar en í fyrra námu þær 810 milljónum króna. Að auki drógust vaxtatekjur félagsins saman um 67 milljónir og námu 151 milljón. Aðrar tekjur voru engar en tæplega 420 milljónir árið áður.

Sjá einnig: Björgólfur fjármagnaði kaupin á DV

Í síðasta mánuði greindi Kjarninn frá því að Novator hafði lánað eiganda útgáfufélags DV og tengdra miðla 920 milljónir króna á rúmlega tveggja ára tímabili. Þar segir að lánin séu ólíkleg til að innheimtast enda sameinaðist útgáfufélagið, Frjáls fjölmiðlun, útgáfufélagi Fréttablaðsins vegna slæms reksturs. Engar skýringar fylgja í ársreikningi vegna niðurfærslunnar.

Fram kemur að skammtímakröfur hafi verið færðar niður til að mæta almennri áhættu sem fylgir kröfueign félagsins. Ekki er um að ræða endanlega afskrift en í árslok nam varúðarniðurfærsla krafna 925 milljónum króna.

Laun og annar starfsmannakostnaður Novator nam tæplega 61 milljón króna árið 2019 og almennur rekstrarkostnaður 52 milljónum. Ársverk félagsins voru þrjú.

Heildareignir voru ríflega 3,1 milljarður króna, þar af 1,1 milljarður vegna eignarhluta í dótturfélagi. Tæplega 1,8 milljarður var skuldabréfaeign félagsins. Skuldir Novator voru ekki nema 8,5 milljónir króna og eigið fé tæplega 3,2 milljarðar. Eiginfjárhlutfall Novator var því nær 100%. Sjóðstreymi félagsins var neikvætt um 815 milljónir króna og er handbært fé í lok ársins 94 milljónir.

Novator á Íslandi er alfarið í eigu félagsins Reliquum sem staðsett er í Lúxemborg. Stjórnarmenn eru þeir Sigþór Sigmarsson og Jan Honoré Matthieu Rottiers. Stjórn félagsins leggur til að ekki verði greiddur arður til hluthafa.