Ný skýrsla sem gefin er út af Alþjóðagjaldeyrissjóðnum heldur því fram að hagvöxtur landa minnki eftir því sem þeir ríku verða ríkari. Jafnframt sé jákvæð fylgni á milli tekjuaukningar þeirra fátækustu og hagvaxtar. Í skýrslunni, sem er skrifuð af fjórum starfsmönnum sjóðsins, er því haldið fram að stærsta verkefni stjórnmálamanna sé að auka jöfnuð.

Helsta niðurstaða skýrslunnar er sú að brauðmolakenningin svokallaða, sem gengur út á það að auknar tekjur þeirra ríkustu skili sér niður stiga samfélagsins og til þeirra fátækustu, eigi ekki við röð að styðjast. Meiri ójöfnuður hafi vond áhrif á velsæld þjóðfélagsins í heild sinni.

Samkvæmt skýrslunni ættu stjórnvöld að leggja sem mesta áherslu á að aðstoða millistéttirnar og hina fátæku. Ójöfnuður hafi aukist undanfarin ár og sé það meðal annars vegna þess að tækifæri fólks séu mismunandi. Það sé ekki bara dugnaður og gáfur sem komi fólki í góðar stöður heldur sé ekki síður mikilvægt að þekkja rétta fólkið. Þannig er auðveldara fyrir þá sem fæðast inn í ríkar fjölskyldur að komast langt í lífinu.

Þeir ríku eyða hlutfallslega minna

Skýrslan nefnir nokkrar ástæður fyrir því að ójöfnuður sé slæmur fyrir hagvöxt. Ójöfnuður geri það að verkum að fátæk börn fari í verri skóla og séu ólíklegri til að fara í háskóla. Þar af leiðandi verði þau óframleiðnari heldur en ef þau hefðu fengið almennilega menntun. Þá kemur fram að því meiri sem ójöfnuður er, því ólíklegra er að kynslóðir geti stokkið upp um stéttir; þ.e. börn fátækra eru líklegri til að vera áfram fátæk.

Þá hefur verið sýnt fram á það að aukinn ójöfnuður geti dregið úr heildareftirspurn í hagkerfinu og þar af leiðandi haft neikvæð áhrif á hagvöxt. Þeir ríku eyða lægra hlutfalli tekna sinna heldur en millistéttir og fátækir. Auk þess dragi ójöfnuður úr fjárfestingu og geti aukið pólitískan óstöðugleika.

Skýrslan lýsir yfir miklum áhyggjum af því að ójöfnuður sé að aukast í heiminum, en ríkasta eitt prósent jarðabúa á yfir 10 prósent allra eigna. Fátækt ku hafa dregist saman í fjölmörgum löndum en aukist í allra þróuðustu löndunum.

Skýrsluna má lesa í heild sinni hér . Taka ber fram að þó Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn gefi þessa skýrslu út, þá kemur skýrslan ekki beint frá sjóðnum heldur starfsmönnum hans og þarf ekki að endurspegla álit sjóðsins sjálfs.

Ójöfnuður hefur verið mikið deiluefni meðal hagfræðinga í gegnum tíðina og þá sérstaklega eftir að franski hagfræðingurinn Thomas Piketty gaf út bók sína "Capital in the 21st century", en hún kom út á ensku síðasta sumar.