Mjölnir MMA ehf, félag utan um rekstur Mjölnis bardagaíþróttafélags, tapaði tæpum 13 milljónum króna á síðasta ári. Tapið dróst verulega saman á milli ára, en á árinu 2020 nam það 42 milljónum.

Eins og frægt var þurftu líkamsræktarstöðvar að loka starfsstöðvum sínum um tíma á árinu 2020 og eitthvað á árinu 2021 vegna takmarkana á tímum Covid-19. Þær lokanir höfðu mikil áhrif á tekjur Mjölnis eins og annarra líkamsræktarstöðva. Tekjur félagsins jukust þannig um 33% á milli ára og fóru úr 163 milljónum í 218 milljónir. Félagið nýtti sér úrræði stjórnvalda er varða lokunarstyrki og hlutabætur og námu styrkirnir 23,5 milljónum króna.

Eignir félagsins voru 50,5 milljónir króna á árinu og drógust saman um 40% á milli ára. Bókfært eigið fé í árslok var neikvætt um 24 milljónir króna en var neikvætt um 11 milljónir árið áður. Skuldir félagsins námu 75 milljónum króna á síðasta ári, en þar af voru 48,5 milljóna skuldir við tengd félög og tengda aðila. Því telur stjórn Mjölnis að félagið sé rekstrarhæft, að því er kemur fram í ársreikningi.

Stjórn félagsins leggur til að greiða engan arð til hluthafa á árinu 2022, en í lok árs voru átta hluthafar að félaginu, eins og í upphafi árs. Stærsti hluthafi Mjölnis MMA er Öskjuhlíð ehf. með 31,4% hlut. Flóki Invest, fjárfestingarfélag Róberts Wessman, á 22,8% hlut í Öskjuhlíð. Feðgarnir Gunnar Lúðvík Nelson og Haraldur Dean Nelson eiga samtals um 18,5% hlut í Mjölni MMA, þar af á Gunnar 14,71%.

Leiðrétt: Í upphaflegu fréttinni var því haldið fram að Öskjuhlíð væri í eigu Jóhanns G. Jóhannssonar.