„Viðhorfið í könnunum sem Capacent hefur unnið fyrir okkur hjá SA og Seðlabanka Íslands hefur verið nær óbreytt undanfarin misseri, það er að það ríki stöðnun og svartsýni. Hins vegar vona alltaf allir að staðan breytist á næstu sex eða tólf mánuðum,“ segir Hannes G. Sigurðsson, aðstoðarframkvæmdastjóri SA, um stöðu mála í íslensku atvinnulífi. Hann segir þó alla bera von í brjósti um að staðan breytist á næstunni. „Það halda allir í vonina en því miður eru óvissuþættirnir margir. Það ríkir óvissa um margar einstaka framkvæmdir og ekki síður um skipulag sjávarútvegsins. Allt dregur þetta úr fjárfestingu sem hefur neikvæð margfeldisáhrif á efnahagslíf landsins.“

Margt í pípunum

Þrátt fyrir almennt neikvætt viðhorf til horfa í viðskiptalífinu, eins og mál standa nú, þá segir Hannes að mörg tækifæri séu til uppbyggingar hér á landi. Hann nefnir uppbyggingaráform Landsvirkjunar sem dæmi um það. Samkvæmt framtíðarsýn sem stjórnendur Landsvirkjunar hafa kynnt telja þeir raunhæft að tvöfalda orkuframleiðslu fram til ársins 2025 og greiða arð- og skattgreiðslur sem nema fjögur til átta prósent af landsframleiðslu.

Hann segist einnig bjartsýnn á að ýmis verkefni geti farið af stað. Kísilverksmiðja í Helguvík og uppbygging orkufreks iðnaðar á Norðausturlandi sé þar á meðal. „Það er í raun allur undirbúningur er varðar kísilverksmiðjuna búinn og að því verkefni er unnið á fullu. Önnur verkefni eru í undirbúningi eða á viðræðustigi.“

Hannes segir versta óvininn í uppbyggingu atvinnulífsins vera óvissuna. „Flestir nefna óvissuna sem helsta þáttinn sem íþyngjandi er. Það er skiljanlegt. Óvissan, á mörgum sviðum, er mjög bagaleg og virkar sem dragbítur á betri tíð,“ segir Hannes.

Nánar er rætt við Hannes í sérblaði um skoðendakönnun MMR og Viðskiptablaðsins sem fylgir nýjasta tölublaði Viðskiptablaðsins.