LVMH samsteypan sem á vörumerki á borð við Louis Vuitton, telur Amazon ekki æskilegan vettvang til þess að selja munaðarvarning. LVMH hefur vaxið gríðarlega á undanförnum árum og á í dag mörg af verðmætustu vörumerkjum heims.

Jean-Jacques Guiony, fjármálastjóri samsteypunnar, hefur sagt að Amazon sé einfaldlega ekki vettvangur fyrir munaðarvarning og að vörumerki LVMH passi engan veginn inn á síðuna. Hann hefur þó gefið í skyn að það væri hægt að skoða möguleika á því, ef Amazon getur aðlagað sig betur að þörfum LVMH.

Ralph Lauren og Michael Kors eru í dag vinsælustu vörumerkin meðal viðskiptavina Amazon. Fjárfestar og greiningaraðilar telja þó mikilvægt að LVMH finni betri leiðir til þess að stunda viðskipti á netinu. Tími er ein mesta munaðarvara okkar tíma og því skiptir öllu að gera hlutina auðfáanlega.