Forsetaembættið í Bandaríkjunum hafnar algjörlega fréttum japanska blaðsins Nikkei um að Barack Obama, forseti Bandaríkjanna, hyggist tilnefna Lawrence Summers, fyrrverandi fjármálaráðherra, sem næsta seðlabankastjóra.

Frétt Nikkei þessa efnis birtist í Nikkei í gær. Blaðið bar heimildir sínar undir forsetaembættið og neitaði talsmaður forsetans þeim. Eftir að fréttin birtist tísti Amy Brundage, talsmaður forsetans, að þessar sögusagnir væru algjörlega rangar. Obama hefði ekki tekið ákvörðun um næsta seðlabankastjóra.

Á þriðjudaginn undirrituðu 350 hagfræðingar bréf sem þeir sendu Obama og hvöttu hann til að tilnefna Janet Yellen, aðstoðarbankastjóra, sem bankastjóra.