Þeir aðilar sem næst standa borgarstjóra og æðstu yfirmönnum Orkuveitu Reykjavíkur neita því að hafa séð og lesið úttektarskýrslu um starfsemi Orkuveitunnar. Þá er enn óljóst hvenær efni hennar verður kynnt borgarfulltrúum og almenningi.

Eins og Viðskiptablaðið greindi frá í morgun var úttektarskýrslu um starfsemi Orkuveitu Reykjavíkur afhent Jóni Gnarr, borgarstjóra, í dag. Samkvæmt skipunarbréf úttektarnefndar er henni ætlað að skýra aðdraganda og orsakir fyrir þeirri stöðu sem rekstur Orkuveitu Reykjavíkur er í.

Samkvæmt heimildum Viðskiptablaðsins gætir nokkurs titrings meðal bæði núverandi og fyrrverandi borgarfulltrúa sem komið hafa að starfsemi Orkuveitunnar, auk þeirra starfsmanna - ýmist núverandi og fyrrverandi - sem skýrslan kann að taka til. Skýrslan átti upprunalega að liggja fyrir þann 1. mars sl. og hefur útgáfa hennar því tafist um sjö mánuði.

Margrét Pétursdóttir, formaður úttektarnefndarinnar, sagði í samtali við Viðskiptablaðið nú undir kvöld að óvíst væri hvenær skýrslan yrði gerð opinber – það væri í höndum eigenda Orkuveitunnar.

Sigurður Björn Blöndal, aðstoðarmaður borgarstjóra, staðfesti að borgarstjóri væri nú með skýrsluna undir höndum. Boða þyrfti eigendafund Orkuveitunnar með viku fyrirvara og á slíkum fundi yrði tekin ákvörðun um framhaldið. Aðspurður þverneitaði hann fyrir það að einhver borgarfulltrúi hefði séð skýrsluna.

Dagur B. Eggertsson, formaður borgarráðs og borgarfulltrúi Samfylkingarinnar, sagðist í samtali við Viðskiptablaðið í gærkvöldi ekki hafa séð skýrsluna og ekki gera ráð fyrir því að sjá hana á undan öðrum borgarfulltrúum.

Viðskiptablaðið hafði í gærdag einnig samband við Eirík Hjálmarsson, upplýsingafulltrúa Orkuveitunnar. Hann sagðist hafa séð hluta skýrslunnar og unnið lítillega við yfirlestur á henni. Aðspurður sagðist hann þó ekki vita hvaða starfsmenn Orkuveitunnar hefðu séð eða lesið skýrsluna eða hluta hennar.

Margrét staðfesti í samtali við Viðskiptablaðið að hópur starfsmanna hefði fengið að lesa ákveðna kafla skýrslunnar. Ástæðurnar fyrir því væru tvær, annars sú að í einhverjum tilvikum gæti verið um trúnaðarupplýsingar að ræða og hins vegar hafi ákveðnir starfsmenn fengið færi á að leiðrétta mögulegar staðreyndarvillur. Aðspurð um það hvaða starfsmenn þetta væru vísaði hún á Bjarna Bjarnason, forstjóra Orkuveitunnar, sem var tengiliður fyrirtækisins við nefndina.

Bjarni brást illa við þegar blaðamaður Viðskiptablaðsins hringdi í hann um kvöldmatarleytið í kvöld. Hann sagðist ekkert vilja tjá sig um innihald skýrslunnar.

„Ég ætla ekki að tjá mig um fortíðina,“ sagði Bjarni aðspurður um það hvort hann sé búinn að sjá og lesa skýrsluna. Hann vildi að öðru leyti ekki tjá sig um málið.

Þegar blaðamaður bað hann um upplýsingar um það hvaða starfsmenn Orkuveitunnar hefðu séð skýrsluna þakkaði hann fyrir samtalið og skellti á.

Nánari upplýsingar um skýrsluna úr fyrri frétt Viðskiptablaðsins:

Í júní 2011 skipaði núverandi meirihluti borgarráðs úttektarnefnd en henni var ætlað að gera úttekt á þeim þáttum sem leiddu til núverandi fjárhagsstöðu fyrirtækisins. Nefndina skipa þau Margrét Pétursdóttir, endurskoðandi, Ása Ólafsdóttir, lögmaður (og fv. aðstoðarmaður Rögnu Árnadóttur þá dómsmálaráðherra) og Ómar Hlynur Kristmundsson, prófessor í opinberri stjórnsýslu við HÍ. Starfsmaður nefndarinnar var Gestur Páll Reynisson, stjórnsýslufræðingur og fv. framkvæmdastjóri Ungra jafnaðarmanna.

Nefndinni var ætlað að skoða resktur Orkuveitu Reykjavíkur allt frá stofnun fyrirtækisins. Í tilkynningu frá Reykjavíkurborg, þar sem tilkynnt var um nefndarskipan, kom fram að henni væri sérstaklega ætlað að skoða hvernig staðið var að mikilvægum skuldbindandi ákvörðunum, þar á meðal aðkomu eigenda, stjórnar og stjórnenda að þessum ákvörðunum. Úttektin mun ennfremur beinast að vinnubrögðum stjórnar, forstjóra og framkvæmdastjórnar og samvinnu þeirra á milli. Þá verða ýmsir þættir innra eftirlits fyrirtækisins metnir og áhættustýring þess skoðuð.