Um síðustu aldamót var mikið flug á Baugi og félagið meðal annars komið með umboð fyrir Topshop á Íslandi. Breska verslunin var hlut af Arcadia-fataverslunarkeðjunni, sem Jón Ásgeir Jóhannesson renndi hýru auga til en breskir bankamenn furðuðu sig á þeim áhuga því Arcadia hafði átt í mesta basli og tapað 90 milljónum punda af sínu markaðsvirði á innan við ári.

Málsvörn
Málsvörn
Í bókinni Málsvörn, sem skrifuð er af Einari Kárasyni og kom út á fimmtudaginn, er fjallað um Arcadia-viðskiptin og í þeim kafla er meðal annars vitnað í bókina Damaged Goods, sem Oliver Shah, nú viðskiptaritstjóri Sunday Times í London, skrifaði og kom út árið 2018. Grípum niður í kaflann um Arcadia:

„Shah segir svo í bókinni að á vordögum 2001 hafi Baugur verið kominn með 20% hlut í Arcadia og nægilegt fé frá Deutsche Bank til að gera tilboð í allt fyrirtækið, en hlutabréf þar voru nú farin að hækka í verði. En um haustið, þegar væntanleg kaup voru um það bil að fara að gerast, sendu ráðgjafar frá Arcadia fax á vitlaust númer; það lenti hjá fish and chips-sjoppu í Devon og þaðan barst það til blaðamanna. Arcadia varð að gera opinbert um tilboðið sem komið var, og þá frestaðist allt.

Lánið stoppaði

Vorið eftir átti svo að taka tilboði Baugs um að kaupa fyrirtækið, en þá brást fjármögnun hjá Baugi þar sem Búnaðarbankinn hætti við að veita lán sem um hafði verið samið. Og nú var allt semsé komið í hámæli og fleiri hugsanlegir kaupendur voru runnir á slóðina, þar á meðal Philip Green."  [...]

„... inni í Arcadia voru verðmætar fasteignir, t.d. TopShop-búðin við Oxford Circus, og kreditkortabanki sem mætti svo selja, en til að loka kaupunum var ég búinn að semja um 20 milljón punda lán hjá Búnaðarbankanum; á bakvið það voru trygg veð. En ég hef fyrir satt að þá hafi Davíð Oddsson forsætisráðherra hringt í Sólon bankastjóra í Búnaðarbankanum þannig að lánið stoppaði og við féllum á tíma." [...]

En Jón þóttist sjá, er hann kynnti sér málin, að miklir möguleikar væru til að bæta reksturinn og söluna, og að þá myndi verðið, 40 pens á hlut, snarhækka. Allt gekk þetta eftir og þegar þarna var komið sögu hafði verð hlutabréfanna tífaldast, var um 400 pens á hlut. Þannig að bara með því að selja þessi 20% sem Baugur átti í Arcadia myndi hann innleysa geysilegan hagnað, á annan tug milljarða íslenskra króna.

Philip Green
Philip Green
© EPA (Brexit)

Breski kaupsýslumaðurinn Philip Green.

Jón Ásgeir heldur áfram: „Þá hringdi í mig forríkur Skoti, Tom Hunter, og vildi að ég hitti vin sinn Philip Green, en þeir áttu saman British Home Stores. Hugmyndin var að við tækjum Arcadia yfir saman og ég fengi TopShop en Philip Green rest. Þetta var 2002 og allt að lagast á mörkuðunum og stjórnendur Arcadia, Stuart og Charles, vildu fara að losna þaðan; það var verið að ræða um að þeir tækju við Marks & Spencer. Planið með Philip Green fór á fullt; þetta fól auðvitað í sér að Arcadia yrði seld nýju félagi, og þar sem 20 prósentin sem ég átti höfðu tífaldast í verði frá því við keyptum þau var ljóst að ég myndi eiga helling eftir þegar ég væri búinn að eignast Top Shop."

Sir Tom Hunter, sem hér var nefndur, er umsvifamikill í bresku atvinnulífi og hann sagði bókarhöfundi að þegar menn hafi farið að sýna áhuga á að kaupa Arcadia hafi Philip Green sagt sér að þessi Íslendingur, Jón Ásgeir, væri áhugaverður. Tom Hunter hafi svo hitt Jón Ásgeir og kynnt sér hvað var í gangi og fundist merkilegt að þessi Íslendingur skyldi vera á undan honum sjálfum, og þeim hópi Breta sem kalla mætti „smásölumennina" þar í landi að sjá möguleikana í stöðunni. Jón Ásgeir hafi mest talað í einsatkvæðis orðum en alltaf áhugavert það sem hann hafði fram að færa.

Allt fullt af löggum

Jón Ásgeir: „Kaupin áttu að gerast 29. ágúst 2002; þá átti semsé að halda stjórnarfund í Arcadia þar sem formlega yrði mælt með að tekið yrði tilboði Philips Green og Baugs í félagið. Planið var að ég með okkar 20% styddi að tilboði Green í félagið yrði tekið, en að við fengjum svo „ungu" tískumerkin eins og TopShop og Miss Selfridge; Philip hafði meiri áhuga á að halda miðjumerkjunum eins og Burton og Dorothy Perkins. Um þetta var mikið fjallað í fréttum hér heima.

En kvöldið áður en átti að ganga frá þessu er hringt til mín í London og í símanum var Jón Björnsson framkvæmdastjóri Baugs á Íslandi. Hann segir mér að þar sé allt í einu allt fullt af löggum, það sé búið að handtaka Tryggva Jónsson forstjóra og gefa út handtökuskipun á mig.

Úti kippa auðvitað allir að sér höndum. Ég segi að sjálfsögðu hvað sé komið upp og að ekki verði unnið hratt um sinn í þessum málum, það eru fundahöld úti langt fram á kvöld." [...]

Ég fékk um það fréttir út að það ætti að handtaka mig í Leifsstöð, og að tökulið RÚV yrði mætt þangað þegar Icelandair-vélin frá London lenti. Ég afpantaði ekki miðann sem ég átti með henni, en leigði samt í staðinn þotu og lét fljúga með mig beint til Reykjavíkur. Allir voru úti í Keflavík að bíða eftir mér en ég var þá kominn niður á Skúlagötu á skrifstofur Ríkislögreglustjóra og tilbúinn í yfirheyrslur."

Þetta sem Jón Ásgeir segir hér, um að það hafi átt að handtaka hann í Leifsstöð, hafa sumir dregið í efa og jafnvel kallað hugarburð hans og vænisýki. Svo að bókarhöfundur ræddi við Jóhann R. Benediktsson fyrrverandi lögreglustjóra á Suðurnesjum og sýslumann á Keflavíkurflugvelli og bar þetta undir hann.

Sviðsett aftaka

Jóhann R. Benediktsson sagði:

„Þetta gerðist nákvæmlega svona; fréttirnar um húsleitina í Baugi voru á allra vitorði, og að morgni dagsins þegar Jón Ásgeir var væntanlegur heim var haft samband við mig frá Efnahagsbrotadeild lögreglunnar og mér falið að handtaka hann strax við lendingu. Mér fannst þetta strax hið furðulegasta mál, vegna þess að vitað var að hann var að snúa heim vegna þessara atburða. Enn óþægilegra var að hálftíma seinna hringdi Elín Hirst varafréttastjóri sjónvarpsins og spyr hvort hún megi koma og mynda handtökuna. Okkur suðurfrá fannst þetta hin mesta þvæla, sérstaklega að sjónvarpið vissi af væntanlegri handtöku hálftíma eftir að okkur var falið að framkvæma hana. Svo að við létum Efnahagsbrotadeildina vita að ef það ætti að handtaka manninn skyldu þeir gera það sjálfir.

Mér var hugsað til frægs myndskeiðs þar sem sáust vera handteknir Björgólfur Guðmundsson og aðrir forystumenn Hafskips og hafði verið sýnt svona þrjúhundruð sinnum og hugsaði með mér að nú ætti að sviðsetja þannig aftöku. Í máli sem var í frumrannsókn! Þarna átti að brjóta allar grundvallarreglur um það hvernig ætti að haga lögreglurannsókn. Og ég get upplýst það núna að ég frétti svo að einn samstarfsmaður minn hefði haft samband við Jón Ásgeir og varað hann við. Þegar ég hætti í þessu embætti sagði ég frá þessu í viðtali við DV og þá brást Ríkislögreglustjórinn ókvæða við. En hvaða hagsmuni hefði ég getað haft af því að fabrikkera svona sögu?"

Nánar má lesa um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir Tölublöð , aðrir geta gerst áskrifendur hér .