Geir H. Haarde segir af og frá að hann hafi tekið ákvörðun um 500 milljóna evra þrautavaraláns til Kaupþings í skriflegu svari til Kastljóss RÚV.

Eins og Viðskiptablaðið fjallaði um í gær sagði Davíð Oddsson í samtali þeirra á milli um lánveitinguna, þegar Davíð var Seðlabankastjóri, að ákvörðunin væri Geirs og að lánið væri þegar tapað.

Jafnframt kom fram í fréttum í gær að Davíð hefði að áliti Sturlu Pálssonar tekið símtalið í hans síma því að hann vissi að símtöl í þann síma væru hljóðrituð.

Seðlabankinn fór með valdið

Geir, sem þá var forsætisráðherra, segir hins vegar alla tíð ljóst að Seðlabankinn fór lögum samkvæmt með valdið til að veita slíkt þrautavaralán en ekki forsætisráðherra.

Jafnframt hafnar Geir því að hann hafi veitt Kaupþingsmönnum vilyrði fyrir láninu.