Forstjóri Nintendo, Satoru Iwata, hefur slegið út af borðinu hugmyndir um að bæta fjárhagsstöðu fyrirtækisins með því að fækka starfsfólki. Eflaust hefur starfsmönnum Nintendo létt við þessar fréttir, en það breytir því þó ekki að fjárhagsleg staða Nintendo er erfið.

Fjallað er um málið á vefsíðu PC Magazine og þar kemur m.a. fram að fyrirtækið hafi dregið töluvert í land í spám sínum fyrir yfirstandandi ár. Upphaflega var gert ráð fyrir því að um 5,5 milljónir eintaka af leikjatölvunni Wii U myndu seljast í ár, en nú er aðeins gert ráð fyrir því að seldar tölvur verði fjórar milljónir talsins.

Þá hefur ekki enn komið út flaggskipsleikur fyrir tölvuna sem laðað gæti að viðskiptavini sem enn hafa ekki freistast til að kaupa leikjatölvuna. Ef það gerist ekki á allra næstu vikum eða mánuðum gæti Nintendo orðið illa úti í samkeppninni við glænýjar leikjatölvur Microsoft og Sony, sem koma út síðar á þessu ári.

Iwata segir að uppsagnir nú gæti það vissulega bætt fjárhagsstöðuna til skemmri tíma litið, en það gæti haft neikvæð áhrif til lengri tíma. Vinnuandinn myndi versna og að hann hafi ekki trú á að starfsfólk, sem hefði áhyggjur af framtíð sinni hjá fyrirtækinu, gæti búið til tölvuleiki sem myndu heilla almenning um heim allan.

Hann segist þó meðvitaður um mikilvægi þess að halda kostnaði niðri og að áhersla væri lögð á að auka hagkvæmni í rekstri fyrirtækisins.