„Ég get því miður ekki tjáð mig um þetta mál að svo stöddu,“ segir Halla Sigrún Hjartardóttir, stjórnarformaður Fjármálaeftirlitsins. Samkvæmt heimildum Viðskiptablaðsins var það rætt á stjórnarfundi FME á miðvikudag hvort áfrýja ætti dómi í máli Ingólfs Guðmundssonar gegn eftirlitinu. Var FME gert að greiða Ingólfi, sem er fyrrverandi framkvæmdastjóri Lífeyrissjóðs verkfræðinga, 8 milljónir í bætur fyrir að hafa valdið því að hann þurfti að hætta störfum fyrir lífeyrissjóðinn.

Spurð hvort ákvörðun hefði verið tekin á fundinum um að áfrýja dóminum svaraði Halla Sigrún: „Nei“. Spurð hvers vegna hún gæti ekki tjáð sig svaraði hún: „Málið er bara á því stigi að ég get ekki tjáð mig um það. Þetta er flókið mál sem ég get því miður ekki tjáð mig um núna. Ég myndi gera það ef ég gæti.“