Birgir Rafn Þráinsson framkvæmdastjóri Gagnaveitu Reykjavíkur kveðst hafna fullyrðingum þess efnis að GR hafi brotið lög með því að birta ekki ársreikninga félagsins. Síminn hefur sent erindi til Póst- og fjarskiptastofnunar (PFS) þar sem þess er krafist að stofnunin hlutist til um að Gagnaveita Reykjavíkur birti á vefsvæði sínu ársreikninga sína, samstæðureikninga og sex mánaða árshlutareiknings.

Telur Síminn að GR brjóti bæði hlutafélagalög og fari í bága við ákvörðun PFS frá því í nóvember 2006, þar sem kveðið var á um að reikningsskil GR skuli gerð í samræmi við meginreglur laga um ársreikninga og liggja fyrir með sambærilegum hætti og almennt gerist.

„Við teljum okkur engin lög hafa brotið og höfum engin tilmæli fengið frá eftirlitsaðilum um birtingu ársreikninga,“ segir Birgir Rafn. „Við förum að sjálfsögðu eftir öllum lögum og reglum eins og aðrir, en samkvæmt mínum upplýsingum ber okkur ekki skylda til að birta ársreikninga okkar. Við erum rekin sem einkahlutafélag, erum einkahlutafélag og um okkur gilda lög um einkahlutafélög.“

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu í dag. Áskrifendur geta lesið blaðið á pdf-formi hér á vefnum. Þeir áskrifendur sem ekki hafa sótt um aðgangsorð til að lesa blaðið á vefnum geta gert það hér .