Guðmundur Hauksson, fyrrverandi forstjóri SPRON, neitar því í samtali við fréttavefinn Pressuna, að hafa ráðlagt Sólveigu Pétursdóttur, fyrrverandi dóms- og kirkjumálaráðherra, að kaupa stofnfjárbréf í SPRON, skömmu eftir að stjórn sjóðsins hafði ákveðið að breyta sjóðnum í hlutafélag og skrá hann á markað. Eins og greint er frá í Viðskiptablaðinu í dag er efnahagsbrotadeild Ríkislögreglustjóra m.a. að rannsaka sölu eiginkonu Guðmundar, Áslaugar Bjargar Viggósdóttur, á stofnfjárbréfum fyrir rúmlega 10 milljónir að nafnvirði.

Hluta bréfanna seldi hún til Sólveigar. Greint er frá því í Viðskiptablaðinu að rannsókn efnahagsbrotadeildar byggi m.a. á því að Sólveig hafi rætt við Guðmund, eftir að ákvörðun um breytingu á sjóðnum hafði verið tekin, og farið eftir ráðleggingum hans á þá leið að hafa samband við verðbréfamiðlara hjá Spron sem hafði bréf til sölu. Eftir það gekk hún frá kaupum á bréfum fyrir 30 milljónir en komst síðar að því að eiginkona Guðmundar hafði selt henni bréfin. Guðmundur neitar því að hafa ráðlagt Sólveigu að kaupa bréf.

Efnahagbrotadeildin er m.a. annars að rannsaka hvað bjó að baki því að yfir 60% allra bréfa sem voru seld, í glugganum eftir að ákvörðun um skráningu sjóðsins á markað hafði verið tekin og fram að því að lokað var fyrir viðskipti, komu frá stjórnarmönnum Spron, starfsmönnum og tengdum aðilum, án þess að upplýst hafi verið um það. Var sú ákvörðun, að upplýsa ekki um sölu innherja á stofnfjárbréfum, byggð á áliti Fjármálaeftirlitsins.