*

mánudagur, 21. september 2020
Frjáls verslun 6. október 2019 19:01

Neituðu að gefast upp

Arngrímur Jóhannsson hefur komið víða við í íslenskri flugsögu þótt fyrsta reynsla hans af flugi hafi ekki verið ánægjuleg að hans sögn.

Ritstjórn
Haraldur Guðjónsson

Þegar litið er yfir íslenska flugsögu er nafn Arngríms Jóhannssonar óneitanlega meðal þeirra sem hafa staðið í fararbroddi við mótun hennar. Arngrímur hefur verið í loftinu í rúm 60 ár en þekktastur er hann fyrir að hafa stofnað flugfélagið Air Atlanta ásamt Þóru Guðmundsdóttur árið 1986 þar sem hann sat sem starfandi stjórnarformaður til ársins 2005. Þrátt fyrir að hafa eytt stórum hluta ævi sinnar í háloftunum var fyrsta reynsla Arngríms af flugi ekki beint ánægjuleg að hans sögn.

„Ég byrjaði að fljúga á Akureyri og var 13 ára þegar ég fór í mitt fyrsta flug. Það var svifflug inni á Melgarðsmelum í Eyjafirði og ég ásamt öðrum lögðum á okkur að hjóla 25 kíló- metra eftir malarvegi tvær helgar í röð til að bera dýrlingana augum sem voru að sviffljúga. Þegar við fórum í þriðja skiptið höfðu þeir fylgst með okkur og sóttu okkur og tóku okkur með. Þann sama dag var ég settur upp í flugvél í fyrsta skiptið og varð svo skelfi- lega hræddur að ég hét því að horfa ekki einu sinni á flugvél aftur. Svo leið aðeins á árið og þegar ég var fjórtán ára þá mátti ég fara að sviffljúga sjálfur. Ég var þá settur í fyrsta flugið, auðvitað þorði ég því ekkert en það kostaði meiri kjark að segjast ekki þora en að fara og þá var ekki aftur snúið. Þannig að ég byrja að fljúga einn fjórtán ára í svifflugi.“

Atvinnuferill Arngríms sem flugmanns hófst árið 1966 en sjö árum áður hafði hann lokið einkaflug- mannsprófi. Hann flaug tvö sumur fyrir Flugfélag Íslands á Douglas DC-3 flugvélum og svo eitt ár fyrir Norðurflug á Akureyri. Árið 1969 fór Arn- grímur svo til Biafra sem er í dag hluti af Nígeríu til að sinna hjálparflugi. „Ég hafði áður starfað sem ratsjáreftirlitsmaður en hafði einnig verið að gera við sjónvarpstæki. Þá kom til mín Gunnar Björns- son sem þá var tæknimaður hjá Loftleiðum og spyr mig hvort ég sé tilbúinn að fara niður til Biafra til að fljúga hjálparflug þar sem stríð geisaði á svæðinu. Ég var þá með ellefu þúsund krónur við að gera við sjónvörpin og spyr í rælni hvað ég muni fá í laun og þá kom í ljós að byrjunarlaunin voru hundrað og tíu þúsund. Ég var þarna í rúmt ár og flaug 135 ferðir inn á átakasvæðin. Þegar það var búið þá var mér farið að líka þetta það vel að ég var búinn að sækja um hjá Air America í Víetnam og var búinn að fá vinnu þar. Þá komu Loftleiðir hins vegar inn og buðu mér vinnu."

Neituðu að gefast upp

Arngrímur hóf störf hjá Loftleiðum en var skömmu seinna lánaður til Cargolux í Lúxemborg sem Loftleiðamenn voru þá að setja á laggirnar. „Ég er eiginlega strax fyrsta árið tékkaður út sem flugmaður á CL-44 eða Monsann eins og hann var kallaður. Þá var Cargolux að byrja og ég var þar í fjögur ár.“

Eftir þann tíma kom hann heim og hóf störf hjá Air Viking. „Eftir þennan tíma hjá Cargolux og verandi aldrei heima þá var það ekki mjög fjölskylduvænt. Fjölskyldan gafst upp og ég greip þarna tækifæri þegar Guðni í Sunnu var með Air Viking. Ég ætlaði bara að vera aðstoðarflugmaður fyrst en það endaði þannig að ég varð mjög fljótt yfirflugstjóri og var það síðustu tvö árin sem félagið starfaði.“

Eftir að Air Viking hætti starfsemi varð Arngrímur einn af stofnendum Arnarflugs þar sem hann gegndi meðal annars starfi stjórnarmanns og yfirflugstjóra. „Við neituðum í raun að gefast upp eftir Air Viking þar sem við vissum að þetta væri hægt og stofnuðum því Arnarflug. Við flugum aldrei áætlunarflug erlendis og ég leit aldrei á þetta sem samkeppni við Icelandair þar sem við vorum á öðrum markaði. Við vorum í leiguflugi, aðallega fyrir Guðna í Sunnu og Helga Jóhannsson í Samvinnuferðum sem voru aðalkúnnarnir. Aftur á móti andaði ekkert hlýju að okkur á þessum tíma. Ég yfirgaf Arnarflug hins vegar árið 1983 þar sem ég átti ekki lengur samleið með félaginu.“

Nánar er rætt við Arngrím í 80 ára afmælisriti Frjálsrar verslunar. Finna má blaðið á helstu sölustöðum. Hægt er að kaupa blaðið hér eða gerast áskrifandi hér.

Stikkorð: Arngrímur Jóhansson